141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[11:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað umhugsunarefni í hvernig stöðu þetta mál er nú. Eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á var lagt fram tiltölulega einfalt frumvarp um breytingu á einu tilteknu ákvæði stjórnarskrárinnar, breytingarákvæðinu. Hér hafa borist breytingartillögur, m.a. breytingartillaga frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem felur það í sér að allt stjórnarskrárfrumvarpið eins og það var statt þegar það kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á dögunum er sett fram sem breytingartillaga. Ég leyfi mér að segja að það er auðvitað á skjön við þingsköp þó að það kunni að standast. Ég ætla ekki að fullyrða að það standist ekki en það er verulega sérkennilegt þegar breytingartillöguformið er notað með þessum hætti.

Rétt áðan var dreift nýrri breytingartillögu um (Forseti hringir.) allt aðra grein frumvarpsins en (Forseti hringir.) breytingarákvæðið. Ég verð því að segja að málið er í nokkru uppnámi og eðlilegt að menn reyni aðeins að nýta tímann í dag til þess að átta sig á (Forseti hringir.) stöðu málsins frekar en að hella sér í umræðu sem augljóslega verður mjög löng (Forseti hringir.) meðan málið er jafnóklárað og blasir við. Ég biðst afsökunar, hæstv. forseti, á því að fara (Forseti hringir.) fram yfir tímann en verð þó að geta þessa og slepp þá kannski við að koma aftur (Forseti hringir.) upp í ræðustól um þetta efni.