141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Forseti Alþingis og formenn stjórnarmeirihlutaflokkanna eru búnir að koma þessu máli í algjöran þvæling, spagettí og komnir með það hring eftir hring. Nú hefur hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar lagt fram breytingartillögu um að auðlindaákvæðið verði tekið inn í stjórnarskrána. Hérna er verið að ræða annað ákvæði sem er í stjórnarskránni sem þjóðin samþykkti. Það er náttúrlega hvorki hægt að bjóða almenningi í landinu né lýðræðishugsjóninni upp á þau vinnubrögð sem eru hér í gangi og það fólk sem stendur fyrir þessu má skammast sín fyrir sín vinnubrögð.

Það á að sjálfsögðu að taka stjórnarskrána aftur á dagskrá í heild sinni, ramma hana inn í 100 klukkutíma umræðu og klára hana á einni viku. Þingið á að sjá sóma sinn í að afgreiða það mál og hætta þessari hringavitleysu og þeirri afbökun á lýðræðinu sem fer (Forseti hringir.) fram í þingsal Alþingis.