141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er algerlega nauðsynlegt að leiðrétta þær rangfærslur sem hér er farið með. Ég geri enn og aftur athugasemdir við það að þingmenn skuli koma með yfirlýsingar eins og hv. þm. Ólöf Nordal gerði, að það komi ekki til greina að ræða þær tillögur sem fyrir liggja, að stöðva þessa umræðu, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði, og hætta þessu rugli, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði. Hvað á þetta að þýða, frú forseti? Erum við ekki í þessum þingsal að ræða þau mál sem fyrir okkur liggja?

Það er einfaldlega kolrangt að sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir á þskj. 1278, um auðlindaákvæði, hafi ekki verið rædd. Hún hefur verið rædd í tvö ár í þinginu og hana má með nokkurn veginn sama orðalagi finna í hluta af breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þskj. 1112 sem er breytingartillaga við mál 415. Það vill (Forseti hringir.) svo til, hv. þm. Birgir Ármannsson, að (Forseti hringir.) viðaukatillaga er breytingartillaga. (Forseti hringir.) Það er ekkert óeðlilegt við það að koma hér fram með breytingartillögu (Forseti hringir.) við breytingartillögu formannanna. (REÁ: Og breytingartillögu …)