141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við er að ég tel algjörlega óverjandi að halda svona áfram með þetta mál hérna, að við ræðum breytingarákvæði til bráðabirgða á stjórnarskránni og að það sé búið að skjóta inn í þá umræðu breytingartillögu þar sem á að koma allri stjórnarskrárbreytingunni inn og síðan núna nýju auðlindaákvæði. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að þetta væri nokkurn veginn alveg eins ákvæði og væri í breytingartillögunni frá Margréti Tryggvadóttur, (Gripið fram í.) svona nokkurn veginn, að mestu leyti. (ÁI: Breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar …)

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Alveg rétt hjá hv. þingmanni, alveg rétt, nákvæmt skal það vera.

Virðulegi forseti. Það að það sé nokkurn veginn eins bendir til þess — (ÁI: Það er eins.) og nú er það orðið eins, virðulegi forseti, og er ætlast til þess að maður taki þátt í þessu? Nú segir hv. þingmaður að þetta sé eins. Áðan sagði hún að það væri nokkurn veginn eins.

Það er verið að tala um stjórnarskrána, það er verið að tala um það hvernig við eigum að breyta stjórnarskrá Íslands. (ÁI: Stöðva.)

Virðulegi forseti. Er það nú (Forseti hringir.) í samræmi við virðingu þingsins að halda svona á eins og er gert hér (Forseti hringir.) með stjórnarskrána? Eigum við þá ekki frekar að hlusta á það sem hv. þm. (Forseti hringir.) Birgitta Jónsdóttir var að segja? Það væri heiðarlegra að reyna að fara þá leiðina (Forseti hringir.) en fara þessa vitleysisleið sem er búið að búa til.

(Forseti (ÞBack): Þingskjölin liggja frammi þannig að hv. þingmenn geta kynnt sér það sem í þeim stendur.)