141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hafa spunnist miklar umræður um hvað mönnum gangi til að ræða það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram. Af hálfu okkar flutningsmanna frumvarpsins hefur það eitt gengið til frá upphafi að reyna að brjóta þá kyrrstöðu og þau átök sem höfðu myndast hér um stjórnarskrármálið í heild sinni, finna farveg fyrir stjórnarskrárbreytingar í einhverri sátt og vísa veginn inn í næsta kjörtímabil. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir frá okkar hendi að til þess að það gæti gengið eftir þyrfti þingsályktunartillögu og frumvarp sem tryggði breytingar á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili.

Það var okkar mat og það lögðum við fram. Síðan hefur líka legið fyrir alveg skýrt af minni hálfu að ég hef viljað ræða um auðlindaákvæðið. Ég hef opnað á það við formenn annarra flokka við mismiklar viðtökur, en grundvallaratriðið er að málið er sett á dagskrá vegna þess að við vildum reyna að brjótast út úr þessari kyrrstöðu og þeim átökum sem eru í kringum (Forseti hringir.) þetta mál. Ef það er ekki mögulegt er þingið á nákvæmlega (Forseti hringir.) sama stað og það var fyrir (Forseti hringir.) og verður að eiga við það sjálft.