141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

dagskrá fundarins.

[13:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég fór fram á það við forseta fyrr á þessum fundi að af hálfu forseta kæmi fram úrskurður um þá breytingartillögu sem hér hefur verið send sem tundurskeyti inn í umræðu um stjórnarskrá þar sem fyrir liggur frumvarp um breytingarákvæði á stjórnarskrá, nota bene um stundarsakir. Er þar komin fram breytingartillaga um heila stjórnarskrá án þess að henni fylgi nokkur lögskýringargögn eins og eðlilegt er þegar um breytingartillögu er að ræða. Ég vil fá úrskurð hæstv. forseta á því hvort þetta samræmist þingsköpum um fjölda umræðna og af því að hér erum við að ræða stjórnarskrána sjálfa og breytingu á henni hvort menn ættu þá ekki að kynna sér þá stjórnarskrá sem er í gildi í landinu. Þar er gert ráð fyrir því að umræður á þingi séu þrjár í hverju máli.

Ég vil að hæstv. forseti úrskurði hvort hann telji þessa breytingartillögu þingtæka og fyrir utan það hvers konar bragur það er að setja þetta mál á dagskrá án þess að úr þessu hafi almennilega verið skorið.