141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða undir liðnum um fundarstjórn forseta undanfarna þá þrjá klukkutíma eða svo sem ég hef þá beðið eftir að komast að til að mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Það kom sem sagt á daginn sem ég spáði fyrir nokkrum dögum, og hlaut bágt fyrir, að breytingartillagan sem birtist við þá tillögu sem fram kom frá fulltrúum þriggja stjórnmálaflokka um að heildarendurskoðun plaggsins ætti að ræðast á þinginu setti í fullkomið uppnám það ferli sem menn reyndu að setja málið í. Það er miður og umræðan sem hefur verið hér undir liðnum um fundarstjórn forseta og teppt þetta þingpúlt undanfarna klukkutíma hefur ekki verið þessu máli til framdráttar.

Gott og vel, ég ætla þá aðeins að rekja umfjöllun nefndarinnar. Það er kannski óhætt að segja að einhvern veginn muni þessi tvö mál sem á dagskránni eru blandast í umræðunni. Það er kannski ekki nema eðlilegt vegna þess að þau eru samhangandi. Í fyrsta lagi er hér verið að fjalla um tillögu um að opna fyrir annað breytingarákvæði á stjórnarskránni og hins vegar er verið að fjalla um þingsályktunartillögu þar sem kveðið er á um að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um það verklag sem eigi að vera á málinu til frambúðar. Þessi tvö mál eru sem sagt bæði á dagskrá en ég spái því, virðulegi forseti, að umræðan muni eilítið blandast.

Ég ber þá von í brjósti að ný stjórnarskrá muni líta dagsins ljós á Íslandi fyrr en síðar. Ég held að vilji þjóðarinnar standi til þess og ég veit að vilji þingsins er sá. Við samþykktum það öll í þingsályktunartillögu á árinu 2011, svokallaðri 63:0 tillögu, að hugur þings stendur til þess að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Hins vegar er nokkurt ábyrgðarhlutverk að breyta stjórnarskrá Íslands. Vanda þarf til verks og ákjósanlegt er að samstarf og samvinna sé um slíkt breytingarferli. Ég ítreka að ég er handviss um að ný stjórnarskrá muni líta dagsins ljós innan tíðar. Spurningin er þá ekki hvort ný stjórnarskrá muni líta dagsins ljós heldur hvenær en við verðum, þingmenn allir, að standa saman um þær breytingar. Við getum ekki með nokkru móti hunsað þann vilja þjóðarinnar sem birtist 20. október. Ég held að enginn þingmaður geti horft framan í augun á kjósendum sínum og í raun og veru sagst ekki vilja lúta þeim skýra vilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október þegar yfir 2/3 hlutar þeirra sem tóku þátt sögðu til um hvernig þeir vildu sjá stjórnarskrá Íslands hvað flestar spurningarnar snerti.

Hins vegar verðum við þingmenn að gera kröfu til okkar sjálfra um að fylgja þessu máli vel úr hlaði, taka djúpa og góða umræðu á vettvangi þingsins og að nýtt plagg standist allar þær tæknilegu kröfur sem við viljum gera til stjórnarskrár, þ.e. grunnplaggs allrar löggjafar í landinu. Alþingi hefur mistekist í 60–70 ár að skrifa nýja stjórnarskrá og það var ákvörðun í upphafi þessa kjörtímabils að vísa málinu til þjóðarinnar. Reyndar var það vinnulag í anda þess sem rætt var á þinginu 2009 er minnihlutastjórn ríkti í landinu með stuðningi Framsóknarflokksins þegar menn urðu sammála um að leita til stjórnlagaráðs um ritun nýrrar stjórnarskrár. Í umræðunni í þessum þingsal er oft litið svo á að þetta sé stjórnarskrá Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna. Svo er ekki, við þingmenn stjórnarflokkanna höfum frá fyrsta degi algjörlega verið skýr með þann vilja okkar að þjóðin öll eigi að skrifa stjórnarskrá, hér eru aðrir en alþingismenn settir til verka við að skrifa nýja stjórnarskrá.

Okkar umboð felst hins vegar í því að reyna að fylgja því verkefni og gæta að því að sá vilji þjóðarinnar sem hefur birst í þjóðfundi, kosningum til stjórnlagaráðs og svo síðar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu birtist í nýrri stjórnarskrá sem um leið, og ég ítreka, stenst allar þær gæðakröfur sem við viljum gera til slíks plaggs.

Hvar erum við svo stödd með málið í dag? Við höfum lent í nokkrum áföllum með þetta ferli og ekki hefur gefist nægur tími til að taka þetta mál jafnlangt á þessu kjörtímabili og við hefðum viljað. Nú eru einungis um tvær vikur síðan hið endanlega plagg stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar birtist sem hafði þá tekið verulegum breytingum frá því plaggi sem birtist undir lok janúar. Það er ljóst að heildarendurskoðun á stjórnarskrá þarf tíma. Hún þarf tíma á Alþingi í umræðu meðal þingmanna og hún þarf sömuleiðis að fá betri og dýpri umræðu meðal þjóðarinnar, umsagnir o.s.frv.

Forseti þings hefur gefið það skýrt til kynna að hann muni ekki halda þingi áfram út í hið óendanlega, fram yfir páska eða sem nær dregur kosningum og þess vegna er þingmönnum nokkur vandi á höndum við að takast á við þetta mál. Öll erum við með á hreinu ábyrgð okkar í því. Því þarf að tryggja góða vinnu svo við getum birt þjóðarviljann en um leið staðið á bak við nýja stjórnarskrá sem stenst allar þær gæðakröfur sem við viljum gera til slíks plaggs.

Í þessum anda var málamiðlun formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar lögð fram til að tryggja framgang málsins, tryggja að sú vinna sem hefur verið lögð í það á þessu kjörtímabili undanfarin ár ónýttist ekki, en um leið að finna málinu áframhaldandi farveg til að koma til dæmis til móts við þær helstu gagnrýnisraddir sem hafa komið fram og fyrst og fremst snert ferli málsins þar sem menn hafa talað um að ekki hafi gefist nægur tími til að ræða þær hugmyndir sem fram eru komnar.

Í þessu sambandi vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns, ég hef ekki nokkra trú á því að nokkur þingmaður eða stjórnmálaflokkur muni treysta sér til þess að ganga á móti þeim þjóðarvilja sem birtist 20. október. Þess vegna tel ég að við munum sjá nýja stjórnarskrá birtast á næsta kjörtímabili, virðulegi forseti. Það hafa komið fram gagnrýnisraddir á ferli málsins, um að plaggið hafi ekki verið nægilega vel unnið, og við verðum að taka mark á þeim röddum. Það er reynt hér með þessari tillögu.

Hér er rétt fram sáttarhönd og vonandi munu ungir leiðtogar annarra stjórnmálaflokka taka í hana svo við getum tryggt þessu máli góðan framgang á næsta kjörtímabili.

Fram er komin breytingartillaga við þetta mál um að allt plaggið eins og það leit dagsins ljós frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði leitt hér fram og greidd um það atkvæði. Það voru vonbrigði að sjá þá tillögu koma fram, svo ég tali bara fyrir mig, virðulegi forseti. Það er vissulega freistandi fyrir marga að samþykkja slíka tillögu en fyrir þá sem vilja í raun og sann nýja stjórnarskrá er þetta ekki besta leiðin. Hvað hefur komið á daginn? Þetta mál er aftur komið í uppnám. Það sýndi sig vel við upphaf þingfundar í morgun. Þetta gefur þeim sem hafa gagnrýnt ferlið hingað til fullkomna ástæðu til að tefja framgang þess hér á þeim dögum sem lifa af þessu þingi, en væri rétt að samþykkja málið á þessu þingi, málið eins og það liggur fyrir, í þeim búningi sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt til? (Gripið fram í: Nei.) Væri gott fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar að samþykkja málið með slíkum hætti? Ég held að ekki nokkur einasti þingmaður geti svarað því játandi.

Hér kemur málið fram sem breytingartillaga. Vilja þingmenn samþykkja stjórnarskrá Íslands sem breytingartillögu? Vilja menn samþykkja stjórnarskrá Íslands án greinargerðar þar sem ekki er útskýrt eða farið í gegnum hvernig lagagreinarnar hljóma og af hverju þær eru orðaðar svona en ekki hinsegin? Nei, það er ekki nokkur bragur á slíku. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort menn séu að hugsa um hagsmuni stjórnarskrárinnar þegar þeir leggja svona plagg fram eða eru komnir í kosningabaráttu. Maður spyr sig. Það sem gleymist oft í þessari umræðu er að nýtt þing þarf líka að samþykkja þær breytingar á stjórnarskrá sem þetta þing gengur frá. Ef við viljum sjá þær verða að veruleika þurfum við að hafa þær í þeim búningi að næsta þing, sem verður kannski skipað með öðrum hætti en þetta þing, geti líka samþykkt þá útfærslu.

Ég er viss um að nýtt þing mun ekki geta hunsað þjóðarviljann 20. október. Ég er viss um að nýtt þing treystir sér ekki til þess að ganga í berhögg við eða taka verulegan sveig frá þeim vilja sem birtist 20. október. Hins vegar getur nýtt þing gefið sér fjölmargar ástæður til þess að hafna þeim breytingum sem við gerum, bæði út frá pólitík og ekki síst út af þeim tæknilegu annmörkum sem eru á búningi málsins ef breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur verður samþykkt. Þar með er málið dautt. Þeir sem í raun og sann eru að hugsa um hagsmuni stjórnarskrárinnar verða að horfa aðeins lengra en nef þeirra nær. Þeir verða að horfa fram á við þannig að það sé tryggt að málið sé búið í þann búning á þessu þingi að næsta þing, öðruvísi skipað, geti samþykkt málið.

Virðulegi forseti. Hugmyndin með þeim tillögum sem hér eru ræddar er að tryggja málinu framhaldslíf, að málið sé unnið áfram á grundvelli þeirra tillagna sem komu fram hjá stjórnlagaráði en fái þann tíma sem þarf. Ég held að það væri góður bragur á því ef þetta þing, sem oft hefur verið talið átakaþing og hefur vissulega tekist á við mörg umdeild verkefni — hér hefur ekki alltaf ríkt friður í þessum sal — en ef, svo ég segi ekki annað, ungir stjórnmálaleiðtogar sem nú leiða sína flokka í kosningabaráttunni fram undan (Gripið fram í.) mundu í raun og veru vilja breyta stjórnmálamenningunni, umræðuhefðinni, ættu þeir með einhverjum hætti að reyna að grípa þann anda sem þessi tillaga felur í sér, taka í þá útréttu sáttarhönd sem í henni felst og leysa úr málum þannig að sómi sé að. Ég held að það sé ekki hægt að marka fyrsta skrefið skýrar en að takast saman að breyta vinnulagi og meðferð þessa máls í anda þeirrar stjórnmálamenningar sem við viljum öll hafa.

Nú hafa formenn þriggja stjórnmálaflokka varpað upp boltanum og stungið upp á málsmeðferð, bæði hvað snertir það að breyta breytingarákvæðinu sjálfu og það að hér er komin fram þingsályktunartillaga. Vonandi verður í meðferð þessa máls í dag hægt að finna farveg fyrir þær lausnir.

Með frumvarpinu eins og það kom frá formönnunum þremur var lagt til að heimilt yrði að breyta stjórnarskránni öðruvísi en gert er ráð fyrir í 79. gr. Markmiðið var þá að gera Alþingi kleift að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili og afgreiða breytingarnar með þeim hætti að þjóðin gæti gengið að kjörborðinu 17. júní 2014, á 70 ára afmæli lýðveldisins.

Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að reyna að tryggja þessu máli farveg og að 79. gr. verði breytt. Sérstaklega tekur nefndin undir það sjónarmið að ákjósanlegt væri að þjóðin mundi í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu taka afstöðu til stjórnarskrár fremur en hún gerir í dag þar sem hún tekur í raun afstöðu til breytingar á stjórnarskrá í gegnum kosningar til Alþingis. Oft og tíðum falla þá stjórnarskrárbreytingar í skuggann af öðrum þáttum sem ráða atkvæðum og þess vegna fá breytingar á stjórnarskrá kannski ekki maklegan sess.

Nokkuð var fjallað í nefndinni um svokallað samþykkishlutfall sem er í tillögu formannanna. Þar þurfti annars vegar 3/5 stuðning þeirra sem á Alþingi greiða atkvæði og hins vegar 3/5 greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir nefndinni komu fram ólík sjónarmið hvað þetta snertir, t.d. um að hækka ætti þröskuldinn eða lækka hann, og einnig var bent á að eðlilegt væri að einfaldur meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu réði lyktum máls og fremur ætti að miða við þátttökuþröskulda en aukinn meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Við í meiri hlutanum teljum nauðsynlegt að mæta þessum sjónarmiðum og fórum bil beggja. Annars vegar byggðum við á tillögu frumvarpsins, þ.e. stóra plaggsins eins og það leit út frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og hins vegar niðurstöðu allra flokka á Alþingi frá árinu 2007, samanber skýrslu nefndar um endurskoðun stjórnarskrár Íslands, svokallaðrar stjórnarskrárnefndar, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd gerðu að sinni í apríl 2009.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að áður en tillaga til breytinga eða viðauka við stjórnarskrá verði lögð fram þurfi tillagan að hafa hlotið 2/3 hluta greiddra atkvæða á Alþingi í stað 3/5. Með því er þá lagt til að þröskuldurinn eða hinn aukni meiri hluti hluta í atkvæðagreiðslu í þinginu sé 66% en ekki 60%, það eru þá 42 þingmenn í stað 38.

Í frumvarpinu er sömuleiðis gert ráð fyrir því að frá samþykkt Alþingis á frumvarpinu líði minnst sex og mest níu mánuðir þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram, en í framangreindri tillögu flokkanna frá árinu 2007 var gert ráð fyrir eins til þriggja mánaða tímalengd eftir samþykkt Alþingis og að umfjöllun þingsins tæki að minnsta kosti níu vikur á milli umræðna og umræðurnar yrðu fjórar. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að gilda muni almennar reglur þingskapa um flutning og meðferð stjórnlagatillagna utan hins aukna meiri hluta. Það er mat meiri hlutans að eðlilegra sé að tryggja lengri tíma til almennrar umræðu og kynningar á breytingartillögunni áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur.

Þá vík ég að þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri en eins og ég hef áður greint frá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að endurskoðun stjórnarskrár þyrfti að vera samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu en fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að það sé lýðræðislegra að meiri hluti ráði niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu og að eðlilegra sé að gera kröfu um og hvetja til þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu með þátttökuþröskuldi. Það komu sem sagt röksemdir fyrir því að stuðning 25% kosningarbærra manna þyrfti til að breyting á stjórnarskrá teldist samþykkt. Með þessari viðmiðun er hlutfallinu stillt í hóf og benda má á að næði frumvarpið fram að ganga gætu þjóðaratkvæðagreiðslur farið fram án tengsla við almennar kosningar.

Það var nokkuð rætt um það í nefndinni hvort ákvæðið ætti að vera tímabundið eða ekki. Í nefndinni kom fram að ekki væri æskilegt að setja í stjórnarskrá tímabundna heimild til breytingar á stjórnarskrá. Tekur meiri hlutinn undir það sjónarmið og bendir á að í greinargerð með frumvarpinu sjálfu kemur fram að ekki þyki rétt að þessi nýja heimild leysi 79. gr. varanlega af hólmi. Nefndin leggur sem sagt til að bæði ákvæðin séu virk ótímasett. Þannig verði heimilt að samþykkja stjórnarskrárbreytingar með tvenns konar hætti, annars vegar að breytingarnar þurfi aukinn meiri hluta á Alþingi, minnst 25% stuðning kosningarbærra manna og meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar hina hefðbundnu leið um tvö þing og alþingiskosningar á milli.

Virðulegi forseti. Hér er sem sagt verið að opna á þann möguleika að takist meiri sátt um breytingar á stjórnarskrá Íslands sé til dæmis hægt að vinna slíkt mál á næsta kjörtímabili og setja svo breytingar á stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar voru skiptar skoðanir um það meðal þeirra gesta sem sóttu fundi nefndarinnar, virðulegi forseti, hvor leiðin væri auðfarnari í raun. Sýnist sitt hverjum og ég er viss um að þingmenn hafa ólíkar skoðanir á því og fer það algjörlega eftir andrúmsloftinu í samfélaginu hvernig tekst til með breytingar á stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn tekur fram að með því að heimila breytingar á stjórnarskrá á þennan hátt án þess að rjúfa þing sé unnt að halda áfram með þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í tillögu stjórnlagaráðs á undirbúningsferli með þjóðfundi, stjórnlaganefnd, stjórnlagaráðinu sjálfu, þjóðaratkvæðagreiðslu og svo vegna þeirrar miklu vinnu sem unnin hefur verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við í meiri hlutanum teljum að með frumvarpinu og þingsályktunartillögu um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins sé unnt að ná fram því meginmarkmiði frumvarpsins að skapa sem víðtækasta sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar sem hefur staðið undanfarin ár.

Meiri hlutinn tekur fram að málið verður kallað til nefndar á milli 2. og 3. umr. og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem lögð er fram á sérstöku þingskjali.

Einn nefndarmanna í meiri hlutanum, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hefur þann fyrirvara á samþykkt sinni vegna áskilnaðar um að 25% kosningarbærra manna skuli samþykkja breytingu á stjórnarskrá að hún er alfarið á móti því að lögfestur verði þátttökuþröskuldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í breytingartillögu er kveðið á um að Alþingi geti breytt lögum um stjórnarskrá Íslands ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða segja svo og að sex til níu mánuðum síðar hafi það verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu en þó þurfi minnst 25 af hundraði allra kosningarbærra manna í landinu að styðja slíka breytingu. Um þjóðaratkvæðagreiðsluna fer samkvæmt lögum.

Samfara þessari breytingartillögu er svo þingsályktunartillaga frá formönnum þriggja stjórnmálaflokka um að skipa stjórnarskrárnefnd allra þeirra þingflokka sem sitja á Alþingi á starfstíma nefndarinnar sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili sem grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar það frumvarp sem liggur fyrir þinginu með hliðsjón af þeim breytingum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram, athugasemdum Feneyjanefndarinnar og þeim umsögnum sem Alþingi hafa borist. Þessi nefnd á að skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og stefnt verður þá að því að heildarendurskoðun stjórnarskrár verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins.

Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að um málið náist víðtæk sátt og samstaða og leggur til þá breytingu að formaður nefndarinnar verði sérstaklega kjörinn af Alþingi eftir samþykkt tillögunnar og stýri starfi hennar til loka starfstímans. Meiri hlutinn leggur sömuleiðis til að stjórnarskrárnefndin verði skipuð fulltrúum þeirra flokka sem sitja á Alþingi á starfstímanum, þ.e. að það verði þá skipað í nefndina á þessu þingi og verði breytingar á skipan þingflokka á næsta þingi taki skipan nefndarinnar mið af þeim breytingum. Af þessu leiðir að í upphafi verði kosin sex manna nefnd en fjöldi nefndarmanna eftir kosningar muni svo ráðast af fjölda þingflokka á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið tillögur meiri hluta nefndarinnar. Ég ítreka hér undir lokin að mér þætti gott og mikilvægt ef þingmenn gætu í dag tekið efnislegar umræður um þær tillögur sem nefndin fjallaði um, þ.e. að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar og það að skipa nefnd sem tekur á málinu og heldur áfram þeirri vinnu sem hefur verið unnin á þessu kjörtímabili svo við þingmenn allir getum haldið áfram þeirri vinnu að virða þann þjóðarvilja sem hefur birst í þeirri vinnu og þeim niðurstöðum sem birtust 20. október, að við hunsum ekki þann þunga nið þjóðarinnar að hér verði skrifuð ný stjórnarskrá en freistum þess um leið að ná um það ferli víðtækari sátt í þessum sal og meðal þjóðarinnar. Við skulum freista þess að koma til móts við þau sjónarmið að málið þurfi lengri tíma. Hér eru lagðar til lausnir í þá veru og óskandi væri ef við gætum í anda nýrrar stjórnmálamenningar haft hér efnislega og góða umræðu um þessi atriði og leitt þessi mál til lykta á þessu þingi.