141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki í efa að orð hv. þingmanns séu rétt lýsing á því sem fór fram. Það er rétt að fram hafa komið yfirlýsingar frá ýmsum forustumönnum í stjórnarflokkunum um að taka bæri til endurskoðunar hitt og þetta annað en breytingarákvæðið. Breytingarákvæðið var hins vegar það sem var lagt fram sem grundvöllur í þessu máli. Maður velti fyrir sér hvað mundi fylgja í framhaldinu. Kemur tillaga um auðlindaákvæði? Verður reynt að ná samstöðu um það? Kemur tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu? Verður reynt að ná samstöðu um það? Allt þetta var í sjálfu sér opið. Einhvern veginn átti maður von á því að ekki yrði lagt fram ákvæði af þessu tagi nema búið væri að leita eftir samstöðu, búið að komast að einhverri niðurstöðu. Ég leyfði mér alla vega að ímynda mér það. Ég held að þessi gangur mála verði síst til þess að einfalda málið eða skýra það.

Maður hlýtur að spyrja í kjölfarið: Telur hv. þm. Magnús Orri Schram að það séu líkur á því að fleiri breytingartillögur komi fram, til dæmis frá fulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar, um fleiri þætti, um þjóðarfrumkvæði, þjóðaratkvæðagreiðslu eða kannski eitthvað allt annað?