141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki til þess hvort fram komi fleiri breytingartillögur. Öllum þingmönnum er frjálst við umfjöllun þessa máls meðan það er á dagskrá að leggja fram breytingartillögur. Það getur vel verið að það komi breytingartillaga frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um annað útlit eða annan hátt á auðlindaákvæði. Hv. þingmenn boðuðu nú sitt eigið stjórnarskipunarfrumvarp, nýja stjórnarskrá, á sínum tíma sem aldrei leit dagsins ljós.

Það sem hefur fyrst og fremst verið vandamálið í ferli þessa máls er að skort hefur á að stjórnarandstaðan hafi viljað koma fram með efnislegar athugasemdir, tillögur, hugmyndir að því hvernig hvert og eitt ákvæði gæti litið út. Það finnst mér hafa skort á. Umræðan hingað til hefur allt of mikið snúist um ferli málsins, formið en ekki efnið. Það væri ákjósanlegt ef við gætum tekið umræðu um það í þessum þingsal eða í nefndinni hvernig ákvæðið sjálft sem snertir auðlindir eigi að líta út. Það hefur skort á það í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hingað til og ef menn eru komnir á þann tímapunkt í ferlinu að vera (Forseti hringir.) tilbúnir til að ræða það efnislega (Forseti hringir.) fagna ég því.