141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að hluta til er ég sammála hv. þm. Birgittu Jónsdóttur í þeim efnum. Mér finnst tillöguflutningurinn síðustu daga vera dálítið til vitnis um að fólk sé að bjarga sér út úr vondri stöðu. Í umræðum fyrr í dag líkti ég því við það að menn hefðu keyrt út í skurð og væru að reyna að komast einhvern veginn upp úr honum. Ég held að sú leið sem er verið að fara sé ekkert endilega góð og ekkert endilega líkleg til árangurs í ljósi ummæla sem ég hef áður látið falla hér.

Hvað varðar möguleikann á því að taka stjórnarskrárfrumvarpið, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, á dagskrá ætla ég svo sem ekkert að setja mig upp á móti því. Ég held hins vegar að hún taki tíma. Ég er ekki viss um að við náum sameiginlegri niðurstöðu í því máli. Ég held að (Forseti hringir.) með því móti værum við að stefna í átakaþing fram undir kosningar.