141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:18]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hann kom víða við í máli sínu. Ég hjó eftir því að hann eyddi tíma í það framan af ræðu sinni að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram 20. október. Hann lagði meðal annars út af því að um mjög villandi spurningar hefði verið að ræða og að því leyti væri niðurstaðan ómarktæk, ef svo mátti skilja. Nú er rétt að hafa í huga að þær spurningar sem voru samþykktar hér frá þinginu voru meðal annars yfirfarnar, metnar og lesnar af landskjörstjórn. Það var hún sem kom með ákveðnar ábendingar um breytingar sem þingið gerði að sínum.

Ég vildi því spyrja hv. þingmann: Er ekki munur á því að tala á þeim nótum að telja sjálfan sig ekki bundinn af þessari niðurstöðu og svo hinu að líta svo á að um ómarktækar niðurstöður sé að ræða eins og þingmaðurinn vill halda fram?