141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji spurninguna. Ég vil þó taka fram að mér fannst þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október meingölluð. Ég lít líka svo á að ég sé óbundinn af niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu. Þetta eru tvö aðskilin mál. Þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verða hendur þingsins eða einstakra þingmanna ekki bundnar (Gripið fram í: Ha?) — ef um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verða hendur þingsins og einstakra þingmanna ekki bundnar. Þeir hljóta eftir sem áður að taka afstöðu út frá sannfæringu sinni. Það er munur á því.

Til eru tvenns konar þjóðaratkvæðagreiðslur, hæstv. forseti, bindandi og ráðgefandi. Þær sem eru ráðgefandi verða ekki við það eitt bindandi að til þeirra sé boðað. Það er skýr munur þarna á. (Forseti hringir.) Hvað varðar mína afstöðu persónulega þá hefur hún alltaf legið fyrir. Enginn þarf að velkjast í vafa um (Forseti hringir.) að ég hef aldrei talið mig bundinn af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hún var sett fram og ákveðin.