141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var sérstaklega góður tónn í lokaorðum hans hér. Ég vil taka undir með honum að það er, að því er ég tel, flötur á því að ná víðtækara samkomulagi um tillögu formannanna og þingsályktunartillöguna sem gæti fleytt þessu máli inn í næsta þing í stað þess að loka það inni í fjögur ár í viðbót. Ég er kannski ekki alveg sammála hv. þingmanni um að tíminn sé úti og að önnur mál þvælist þar fyrir. Við þekkjum það nú þingmenn að við vílum ekki fyrir okkur að vinna hér myrkranna á milli þegar á þarf að halda.

Það er eitt sem vakti athygli mína í orðum hv. þingmanns, það var að nýkjörið þing gæti síðan bara skipt um skoðun og breytt niðurstöðu. Það er einmitt málið. Er það ekki allt í lagi? Er það ekki bara lýðræðisleg niðurstaða? Eiga menn nokkuð að vera að láta það (Forseti hringir.) hræða sig í sjálfu sér frá því að taka ákvarðanir núna? Er það ekki eitthvað sem menn berjast fyrir í kosningabaráttu (Forseti hringir.) og spyrja síðan að leikslokum þegar upp úr kössunum er talið?