141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skýringin á því af hverju sérfræðinganefnd og eftir atvikum Feneyjanefndin taldi að rétt væri að hafa mismunandi aðferðir við að breyta stjórnarskrá var fyrst og fremst sú að gæta betur að mannréttindaákvæðunum. Hugmyndin á bak við tvenns konar leiðir var fyrst og fremst sú að almenna leiðin væri hugsanlega of létt, of létt væri að breyta stjórnarskrá miðað við almennu leiðina, og þess vegna væri rétt að setja frekari skorður við því hvað varðar mannréttindaákvæðin, að þeim yrði ekki breytt nema með öðrum og vandaðri hætti en almennu breytingarnar.

Þetta er svolítið annað en við erum að tala um í dag. Í dag erum við að tala um, og það er sú tillaga sem liggur fyrir, að það séu tvær mismunandi leiðir til að breyta stjórnarskrá, þær séu jafngildar, hægt sé að beita þeim um hvaða ákvæði stjórnarskrárinnar sem er. Ég játa það alveg að það hefur komið fram ítrekað af hálfu sérfræðinga sem um þetta hafa fjallað að fyrir þessu eru fordæmi. Þetta er ekki óþekkt í heiminum, en ég fer ekki ofan af því að mér finnst það óheppilegt.