141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp formanna stjórnarflokkanna og formanns Bjartrar framtíðar. Inn í þá umræðu hljóta að blandast þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við málið sem og sú þingsályktunartillaga sem var hér síðast til umræðu því að þetta er hugsað sem eitt ferli til að byggja brú yfir í næsta þing þannig að öll sú vinna sem farið hefur fram hér á undanförnum árum, allt frá árinu 2009, fari ekki forgörðum.

Við höfum því miður séð í verki, og þjóðin öll, þá miklu tafaleiki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir stundum með aðstoð Framsóknarflokksins, í þrjú ár eða allt frá því Hæstiréttur úrskurðaði kosningu á stjórnlagaþing ógilda. Þannig var líka komið í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla um spurningar og þær áherslur sem þjóðin vildi leggja í nýrri stjórnarskrá gæti farið fram samhliða forsetakosningum síðastliðið sumar og þegar það var búið þá var kvartað undan því að þar hefði fjármunum verið sóað, að ferðin hafi ekki verið notuð til að kjósa á sama tíma.

Herra forseti. Ég gleymi ekki því kvöldi sem við sátum hér fram undir miðnætti og klukkan tifaði og á miðnætti þá gall klukkan, þrír mánuðir til forsetakosninga og þar með var málið dautt. Menn töluðu og töluðu og reyndu sem þeir frekast máttu að koma í veg fyrir þetta en spruttu svo upp daginn eftir og sögðu: Hvað á þetta að þýða, hvað á þetta að þýða að sóa peningum með þessum hætti, að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðsluna á sama tíma? Þetta heyrðum við líka þegar hér var samþykkt að fram skyldi fara þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október síðastliðinn.

Frú forseti. Þannig hafa margir steinar, mörg grjót og heil björg verið lögð í götu þessara breytinga sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum, ekki bara hér í þinginu heldur utan þings og meðal þjóðarinnar. En þrátt fyrir það lukum við því verki sem fyrir þingnefndina var lagt, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að leggja fram heildstæða tillögu að nýrri stjórnarskrá eftir ítarlegt umsagnarferli og að teknu tilliti til margra breytingartillagna sem þá komu fram.

Ég er enn þeirrar skoðunar að við gætum, ef vilji væri fyrir hendi hér í þingsal, lokið heildarumfjöllun um stjórnarskrána og samþykkt nýtt frumvarp að stjórnarskrá á þessu þingi. Ég geri mér grein fyrir að þar eru margir kaflar sem menn eru ekki sáttir við, finnst þeir þurfa að skoða betur. Við buðum upp á það og ræddum það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og eins opinberlega að þeir kaflar, til að mynda um stjórnskipanina, um forsetann, um ráðherra og ríkisstjórn, sem Feneyjanefndin fjallaði sérstaklega um, yrðu einfaldlega geymdir yfir á næsta kjörtímabil og gömlu ákvæðin, þ.e. núgildandi ákvæði úr stjórnarskrá lýðveldisins frá 17. júní 1944, sett inn á milli.

Það varð heldur ekki að samkomulagi og þegar við komum hér til þings með stjórnarskrárfrumvarpið í 2. umr. þá var það, með virðingu fyrir því tungumáli sem er íslenska og er þingmálið, „business as usual“. Þá var farið fram á tvöfalda umræðu og það var alveg sýnt að ekki var nokkur leið að fá botn í þá umræðu hér í þinginu. Þess vegna og vegna þeirrar reynslu sem við höfum haft hér af því málþófi, því samherjaskjalli sem verið hefur uppi allt þetta kjörtímabil, þar sem fáeinir einstaklingar skiptast á því að fara í andsvör hver við annan, lesa upp sömu nefndarálitin, vísa til sömu athugasemdanna dag eftir dag eftir dag. (Gripið fram í.) — Þetta er svo málefnalegt eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir þekkir mætavel. Lungann úr föstudeginum og allan laugardaginn eyddu menn vinnutíma Alþingis í að ræða um hvað? Opinbera háskóla, ég held að það hafi verið þrír eða fjórir sem tóku þátt í þeirri umræðu. Það var bara endurtekið efni enda enginn ágreiningur í málinu, ekki nokkur. Málið búið að vera hér inni í þinginu frá því í haust og allir ósköp sáttir. En það hentaði að setja stóra stopparann upp og það var gert.

Í stjórnarskrármálinu eru menn seinþreyttir til vandræða. Við höfum reynt að halda þessu máli til streitu og gera eins og mögulegt er hverju sinni, höfum brugðist við öllum þeim barbabrellum sem menn hafa komið upp með á ferlinum. Þegar stóri stopparinn og málþófið kom upp núna við 2. umr. og engin von var til að taka einhverja sameiginlega ákvörðun um framhaldið brugðust formenn stjórnarflokkanna og formaður Bjartrar framtíðar við með því að leita annarra leiða með tillögu sem við hér ræðum og frumvarpi um hvernig flytja megi málið yfir á næsta kjörtímabil með samþykkt sérstakrar þingsályktunar og með því að breyta 79. gr. um það hvernig breyta eigi stjórnarskránni.

Ég virði þessa tilraun formannanna til að ná víðtæku samkomulagi. Þarna er í reynd gert ráð fyrir því að það verði hin eina breyting að hægt verði að breyta stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu að fengnu samþykki aukins meiri hluta hér á Alþingi og sú þjóðaratkvæðagreiðsla getur farið fram með þingkosningum, forsetakosningum, sveitarstjórnarkosningum en hún getur líka farið fram algerlega sjálfstætt án þess að til þess þurfi að koma að rjúfa þing. Þannig væri í raun hægt að fleyta málinu áfram inn í næsta kjörtímabil.

Því miður varð ekki sú mikla sátt um þessa tillögu sem við væntum og þess vegna er það að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og ég sem starfandi formaður þar þessa dagana, höfum gengið enn lengra í samkomulagsátt en formennirnir lögðu til. Nú liggur málið fyrir okkur svo breytt að tillaga allra flokka frá 2007, allra flokka sem sátu á Alþingi 2007, tillaga sem Sjálfstæðisflokkur gerði að sinni í stjórnskipunarnefnd 2009, er tekin og hún fléttuð inn í frumvarp formannanna. Þarna hefði ég haldið að menn ættu að geta tekið í þá útréttu sáttarhönd því að þar er ekki, eins og menn hafa oft verið að tala um hér, um einstefnu af hálfu þessara stjórnarflokka að ræða heldur er þvert á móti verið að taka tillögu sem allir flokkar sameinuðust um, það er ekki lengra síðan en á árinu 2007, og Sjálfstæðisflokkurinn bar upp í umræðum um stjórnarskrárbreytingar vorið 2009 sem ég hugsa nú að flestir muni hér.

Frú forseti. Hvað felst þá í þessari tillögu? Í fyrsta lagi að aukinn meiri hluta þurfi á Alþingi til þess að stjórnarskrárbreyting megi fara til þjóðaratkvæðis. Við gerðum þá breytingu í nefndinni að í stað þess að það væru 3/5, eða 60% þingmanna, 38 þingmenn, verði það 2/3 þingmanna, eða 42 þingmenn, 66%, sem þurfa, ef þingið er fullskipað, að samþykkja stjórnarskrárbreytingu til þess að fara til þjóðaratkvæðis. Þarna tókum við tillit til þeirra tillagna sem ég nefndi áðan sem fulltrúar allra flokka sameinuðust um og sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu að sínum vorið 2009.

Hvað varðar tíma sem líður milli þjóðaratkvæðagreiðslu og afgreiðslu þings þá göngum við lengra en tillagan frá öllum flokkum og Sjálfstæðisflokki sérstaklega gerði ráð fyrir. Við tökum þar tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og segjum að líða eigi sex til níu mánuðir frá samþykkt Alþingis þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram en ekki einn til þrír mánuðir eins og gert var ráð fyrir í hinni tillögunni. Við gerum einnig ráð fyrir að farið verði með stjórnarskipunarlög eins og önnur lög, farið í þrjár umræður í samræmi við stjórnarskrána og engir sérstakir tímafrestir settir þar inn.

Að lokum, og það sem er algert nýmæli í þessu, er það þjóðaratkvæðagreiðslan sjálf, að breyta stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu eins og áskilið var þegar stjórnarskrá sem við nú búum við var samþykkt. Þar gerum við þá breytingu frá tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — og það er líka í samræmi við tillögur fulltrúa allra flokka frá 2007, tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði að sínum vorið 2009 — að í stað aukins meiri hluta í slíkri kosningu komi til einfaldur meiri hluti. Það er að sönnu líka lýðræðislegra vegna þess að þegar maður fer að skoða málið þá er ekki eðlilegt að minni hluti, segjum 41%, ráði niðurstöðu máls á móti 59%. Þetta tökum við til greina og segjum að um leið og meiri hluti hefur greitt stjórnlagabreytingu atkvæði sitt í kosningum teljist það samþykkt en þó aðeins ef 25% kjósenda á kjörskrá hafa sagt já.

Hvað þýðir þetta? Þetta er krafa um að breytingar sem verði á stjórnarskrá njóti einhvers lágmarksstuðnings í samfélaginu. Við getum ímyndað okkur að þetta væri breyting sem miklar deilur stæðu um og tvísýnt hvorum megin niðurstaðan lægi, þá þýðir þetta í reynd að krafist er 51% þátttöku þjóðarinnar. Þá þarf 25–26% kjósenda á kjörskrá til þess að samþykkja tillöguna. En ef um væri að ræða litla breytingu sem mikil samstaða væri um má segja að ef 26% kjósenda tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu og allir væru sammála mundi það duga.

Við búum sem betur fer við það á þessu landi að mikil þátttaka er í atkvæðagreiðslum almennt. Fólk lætur sig framgang þessa samfélags miklu skipta og það tekur gjarnan þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum þó að það sé í minna mæli í almennum þjóðaratkvæðagreiðslum en í almennum þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum. Þessi leið — aukinn meiri hluti í Alþingi, sex til níu mánuðir fram að þjóðaratkvæðagreiðslu, einfaldur meiri hluti þar, þó þannig að 25% kjósenda gjaldi jáyrði við breytingunni — liggur á borðum þingmanna núna. Þessi leið er, eins og ég segi og endurtek enn og aftur, sú tillaga næstum því orðrétt sem fulltrúar allra flokka lögðu fyrir þingið 2007 og kom aldrei til umræðu eða afgreiðslu og sjálfstæðismenn tóku upp og gerðu að sinni vorið 2009. Hún komst ekki til atkvæða heldur.

Frú forseti. Ég tel ekki fullreynt að við náum sameiginlegri lendingu með þessu móti. Það eru auðvitað vonbrigði að ná ekki stærri þætti en bara þessu en vonbrigðin að ná engu eru þó miklum mun meiri vegna þess að það má túlka sem uppgjöf Alþingis gagnvart því verkefni sem því var falið eftir kosningarnar 2009. Við skulum bara muna hvað gerist ef tillaga sem þessi fær ekki brautargengi hér í Alþingi. Ég veit að næsta þing gæti fellt hana og þar með væri hún úr sögunni. Það er bara lýðræðisleg leið og ekkert við það að athuga. En ef það yrði nú samþykkt gæti vinnan við stjórnarskrármálið haldið áfram strax næsta haust. Ef ekki, ef engin slík tillaga verður samþykkt hér og staðfest á næsta þingi, er ljóst að fjögur ár í viðbót munu líða þar til unnt verður að koma því við að afgreiða breytingar á stjórnarskrá. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hér áðan að það væri ekkert mál að rjúfa þing og efna til þingkosninga bara til þess að fara í stjórnarskrárbreytingar en við vitum það, sem höfum fylgst með gangi þessara mála hér í þessi, hvað eigum við að segja, 70 ár frá því stjórnarskráin var sett, tæplega, að er ekki svo einfalt sem hv. þingmaður telur.

Frú forseti. Við höfum tækifæri til að ljúka verkinu 17. júní 2014 á 70 ára afmæli lýðveldisins og væri mikill sómi að því. Ég er ekki úrkula vonar um að það megi takast en ég er heldur ekki úrkula vonar um að þetta þing nái því að bæta í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum í náttúru Íslands. Og hvers vegna segi ég það? Jú, það er vegna þess að frá árinu 1998 nánast, þegar auðlindalögin voru samþykkt, á árinu 2000 þegar auðlindanefndin skilaði af sér og á hverju þingi nánast síðan, öllum flokksþingum meira og minna, í öllum kosningastefnuskrám og yfirlýsingum, þá hafa flokkarnir lýst því yfir, allir þeir flokkar sem eru á þingi, að þeir vilji festa í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum í náttúru Íslands.

Ég er einn fjögurra flutningsmanna breytingartillögu eða viðaukatillögu á þingskjali sem liggur fyrir í þessari umræðu, frú forseti, á þingskjali 1278. Þar er um að ræða orðrétta þá tillögu sem er að finna í 35. gr. í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þingskjali 1112, breytingartillögur við mál 415, sem er stjórnarskrárfrumvarpið. Það orðalag sem hér liggur fyrir, og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi að væri nýtt og breytt og hefði kannski komið á óvart og ætti eftir að skoðast nánar, byggir á mikilli vinnu, það byggir á rannsókn á öllum þeim tillögum sem fyrir hafa legið, eins og ég segi frá árinu 1998, ótal umsögnum og breytingartillögum, meðal annars frá fastanefndum Alþingis og frá sérfræðingum, bæði á sviði stjórnskipunarréttar og auðlindaréttar.

Þetta orðalag, eins og það liggur fyrir, var afgreitt úr nefndinni minnir mig einhvern tíma í kringum 20. janúar en hafði verið dreift nokkru áður eða um og upp úr miðjum janúar til nefndarmanna. Þetta er ítarlegra ákvæði en við höfum haft fyrir framan okkur fyrr og það sem meira er að þó svo ekki fylgi á þessu þingskjali skýringar þá fylgja ítarlegar skýringar, upp á einar fimm eða sex blaðsíður, þessu ákvæði í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Með þessu ákvæði er fest í sessi sérstök tegund eignarréttar, þjóðareignarréttur, sem er hliðsettur og hliðstæður og jafnsettur hefðbundnum einkaeignarrétti einstaklinga og lögaðila. Með þessum ákvæðum er þjóðareignarréttinum sköpuð stjórnskipuleg vernd um leið og girt er fyrir að réttur þjóðarinnar til sameiginlegra auðlinda sinna fari halloka fyrir réttindavernd einkaeignarréttarins.

Ég vek athygli á því að með því orðalagi sem hér er, og sérstaklega er tekið fram í skýringum, er ekki raskað óbeinum eignarréttindum sem kann, að mati til að mynda útgerðarinnar, að hafa verið stofnað til með afnotarétti eða nýtingarrétti. Það er ekki tekin afstaða til þeirra deilna sem uppi hafa verið um eignarhald á fiskveiðiauðlindinni vegna þessa. Það teljum við að hljóti alltaf að vera verkefni dómstóla. Hins vegar er í ákvæðinu girt algerlega fyrir það að nýtingarleyfi geti stofnað til eignarréttinda, hvorki beinna né óbeinna. Með því að í 5. mgr. segir um nýtingarleyfi að slík leyfi skuli veita á jafnræðisgrundvelli og, með leyfi forseta, að þau leiði aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.

Þetta er lykilatriði í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í á annan áratug um auðlindamálin. Auk þess að skilgreina þjóðareignarréttinn og veita honum stjórnarskrárvernd er í þessu ákvæði tekið af skarið með það að auðlindir í eigu ríkisins sem hefur verið fyrirkomið í einkaeignarréttarlegum félögum svo sem eins og Landsvirkjun og á ríkisjörðum, þær auðlindir séu háðar sömu takmörkunum, þ.e. bann við framsali þeirra og að eignarréttur þeirra geti færst til annarra en ríkisins. Þá er að finna í ákvæðinu skilgreiningu á því hvaða auðlindir það eru sem háðar eru þjóðareign, skilgreint að nýting þeirra sé ávallt í þágu komandi kynslóða og almannahags auk þess sem, eins og ég sagði áðan, skilmálar nýtingarleyfanna eru ítrekaðir bæði hvað varðar gjaldtöku og veitingu þeirra til tiltekins hóflegs tíma í senn. Og það sem mikilvægast er — og ég hef þegar nefnt og ætla að ítreka — að slík leyfi leiði aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.

Því miður hefur ekki fengist umræða í þessum þingsal og heldur ekki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta orðalag. Þetta hefur legið fyrir í tæpa tvo mánuði og því miður hefur ekki tekist að fá gagnrýni eða tillögur um annað orðalag. Það eru viss vonbrigði og ég hlýt að kalla eftir því að menn taki sig nú á í þeim efnum á næstu dögum og við förum yfir þetta ákvæði sameiginlega, þessa viðaukatillögu. En meginatriðið er, frú forseti, að við glötum ekki því einstæða tækifæri sem við höfum til að koma þessari vinnu áfram yfir á næsta kjörtímabil í stað þess að loka málið inni fjögur ár í viðbót. Það væru mestu vonbrigðin. Þess vegna fagna ég orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar um að samkomulagsflötur kunni að vera í breytingarákvæðinu. Ég lýsi því yfir að við erum að sjálfsögðu tilbúin til að vinna að því og sama gildir um aðrar tillögur sem fyrir liggja og þá á ég líka við þingsályktunartillöguna sem ekki er hér til umræðu.