141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að formenn flokka sem skipa meiri hluta á þinginu, og sá meiri hluti kom fram nýlega þegar vantrauststillaga á ríkisstjórnina var felld, lögðu fram breytingartillögu sem þeir töldu að gæti orðið til sátta og til þess að fleyta málinu áfram yfir á næsta þing, eins og ég hef rakið. Það er engin óeining hvað varðar auðlindaákvæðið milli þessar flokka, fulltrúa flokkanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hv. þm. Róbert Marshall á sæti, ég fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna og þrír fulltrúar Samfylkingar.

Það er engin óeining um hvernig auðlindaákvæðið skuli orðað eða að það skuli vera í stjórnarskránni. Það var hins vegar mat formannanna að rétt væri að láta reyna á hvort menn væru tilbúnir til að sættast á að breyta bara breytingarákvæðinu, þ.e. 79. gr. Það má líta á þá viðaukatillögu sem svo að við teljum mikilvægt að láta líka reyna á þær yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna í landinu, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, um að þeir vilji setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Við viljum veita þeim tækifæri til að standa við þær yfirlýsingar sínar núna á lokametrunum þótt ekki sé nema vegna þess að við höfum ekki fengið þá til að ræða við okkur í alvöru um heildarbreytingarnar.

Ég nefndi áðan að allar þær tillögur sem við fengum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerðu ráð fyrir því að breyta ætti stjórnarskrá með tvennum hætti. Ég get alveg tekið undir að það er kannski ekki góður svipur á því en það virðist hvorki trufla fagmenn, sérfræðinga, Feneyjanefnd né stjórnlagaráð svo út í það sé farið.