141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ein stærsta deila sem uppi hefur verið í þessu þjóðfélagi og hefur skipt þjóðinni í tvo hópa undanfarna áratugi er deilan um kvótakerfið. Um hvað snýst hún? Hún snýst í rauninni um það hverjir eigi fiskiauðlindina, hverjir eigi nytjastofnana í hafinu. Þar hefur ekki dugað að setja einfaldlega í lög að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina því að uppi hafa verið kröfur frá útgerðarmönnum og þeim sem hafa haft kvótann, keypt kvóta og fengið nýtingarleyfi að þau nýtingarleyfi skapi óbeinan eignarrétt sem þeim sé þá frjálst að ráðstafa eins og öðrum slíkum eignarrétti. Það hefur verið deilan í samfélaginu undanfarna áratugi. (Gripið fram í.) Og þegar tillaga auðlindanefndar kom fram á árinu 2000 var gert ráð fyrir því að nýtingarleyfin sköpuðu einkaeignarrétt.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir mætti vita það að á árinu 2009 hvarf Framsóknarflokkurinn frá þeirri stefnu og lagði fram fyrir þingið tillögu að auðlindaákvæði þar sem tekið var á því að nýtingarleyfin skyldu ekki mynda óbeinan eða beinan eignarrétt. Það var þess vegna algerlega nýtt í umræðunni þegar fulltrúar Framsóknarflokksins komu fram með gömlu tillöguna frá árinu 2000 um að nýtingarleyfi skyldu mynda einkaeignarrétt hjá útgerðarmönnum og við því var að (Forseti hringir.) sjálfsögðu brugðist. Það er ekki samkomulagsgrunnur í mínum huga.