141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og innlegg hennar í umræðuna og vinnu á vettvangi nefndarinnar. Hún tjáði skoðun sína á heimildarákvæðinu með þeim hætti að hún teldi ekki rétt að opna fyrir þann möguleika að 2/3 hlutar þings gætu breytt stjórnarskrá á miðju kjörtímabili og að málið yrði leitt til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli þeirrar samþykktar.

Hún færði þau rök fyrir máli sínu að hún teldi hina leiðina, gömlu leiðina, skynsamlegri til þess að ná samstöðu meðal þingsins á þeim grundvelli að tvö þing þyrftu að fjalla um málið. En nota bene, það er þá eingöngu einfaldur meiri hluti á hvoru þingi fyrir sig.

Ef við hefðum viljað breyta stjórnarskrá á stjórnartíma Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á sínum tíma, á þessum 12 ára valdatíma flokkanna, hefðu þeir þrisvar sinnum getað breytt stjórnarskrá án þess að leita samþykkis annarra stjórnmálaflokka með einföldum meiri hluta því að þeir voru í ríkisstjórnarmeirihluta og höfðu valdið í þinginu.

Ég tel því að það að opna á hinn möguleikann, þ.e. að 2/3 hlutar þings þurfi að samþykkja stjórnarskrárbreytingu, sé heppilegra til að leysa málið í sátt. En gamla leiðin, tvö þing, krefst þess að fólk taki afstöðu til stjórnarskrárbreytinga í kosningum til Alþingis. Þá hljótum við að gera þá kröfu á stjórnmálaflokkana að þeir birti með skýrum hætti afstöðu sína til stjórnarskrárbreytinga til þess að fólk geti kosið þann flokk í alþingiskosningum sem fylgir yfirlýstri stefnu sinni eða nálgun varðandi stjórnarskrárbreytingar.

Maður spyr sig hvort Framsóknarflokkurinn geti með skýrum hætti byggt afstöðu sína til stjórnlagabreytinga, vegna þess að árið 2009 sagði flokkurinn að ný og nútímaleg stjórnarskrá ætti að líta dagsins ljós. Hún yrði samin af stjórnlagaþingi þar sem sæti ættu þjóðkjörnir (Forseti hringir.) fulltrúar og að flokkurinn væri því fylgjandi að ráðist yrði í heildarendurskoðun stjórnarskrár, sem er akkúrat það sem gerðist á þessu kjörtímabili, en flokkurinn hefur engu að síður staðið á móti.

Þarna tel ég að hv. þingmaður sé í þversögn við skoðanir sínar, vegna þess að til þess að fólk geti tekið afstöðu (Forseti hringir.) til stjórnarskrárbreytinga og kosið flokka samkvæmt því í alþingiskosningum, þurfa flokkarnir að standa við nálgun sína.