141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Þar komu reyndar fram ný sjónarmið um að þjóðinni væri ekki treystandi til að greiða atkvæði um stjórnarskrá sína, að betra væri að fulltrúar þjóðarinnar, þ.e. þingið, greiddu atkvæði. Hv. þingmaður sagði að það væri tiltölulega auðvelt að rjúfa þing. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Sér hún fyrir sér að það sé svo auðvelt að rjúfa þing eins og hún talar um? Menn fjalla hér alla daga um alls konar brýn mál, hagsmuni heimilanna og fleira. Eiga menn allt í einu að fara að rjúfa þing og efna til þingkosninga vegna þess að þeir vilja breyta stjórnarskránni?

Svo er það annað. Þegar menn kjósa til þings við almennar þingkosningar, eru kjósendur þá ekki yfirleitt að hugsa um hag heimila sinna og hag fyrirtækja, efnahagslífið, menntamálin, heilbrigðismálin og eitthvað allt annað en stjórnarskrána? Þeir kjósa fulltrúa sína til næstu fjögurra ára. Og jafnvel þó að síðasta þing hafi samþykkt breytingar á stjórnarskrá sem nýtt þing mundi greiða atkvæði um, telur hv. þingmaður að mögulegt sé að stjórnarskrárbreytingin fengi það vægi í þeim kosningum að það mundi yfirgnæfa þetta venjulega sem menn kjósa um þegar þeir kjósa um stjórn landsins næstu fjögur árin?

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á að núgildandi stjórnarskrá bjargaði Icesave í tvígang, reyndar með atbeina forseta Íslands. Í tillögum stjórnlagaráðs og í þeim tillögum sem við ræðum nú um eru einmitt undanskilin fjármálaleg atriði þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum. Telur hún að það sé til bóta að það vald sé tekið út? Valdið er reyndar áfram hjá forsetanum, en beint lýðræði hefur ekki áhrif á fjármál.