141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurn hans. Það er ekki skoðun mín að þjóðin kjósi ekki um stjórnarskrárbreytingar, það er bara staðfest í stjórnarskránni sjálfri, 79. gr. Ég er einfaldlega að vísa í hana þegar ég segi það.

Ég er að tala um það þegar sátt ríkir um stjórnarskrárbreytingar, eins og þegar mannréttindakaflanum var breytt 1995, þá var altæk sátt á þingi, má segja. Þá var þingið rofið. Stjórnarskrárbreytingarnar lágu til grundvallar þeim kosningum. Hér var kosinn nýr meiri hluti og nýtt þing samþykkti þær breytingar. Það er sú sátt sem við verðum að ná um stjórnarskrárbreytingarnar, ekki ósáttin sem verið hefur á þessu kjörtímabili. Það er það sem leggur grunninn að því að við alþingiskosningar gefur fólk jafnframt jáyrði sitt við stjórnarskrárbreytingum. Þannig er kerfið uppbyggt í dag og því er ég hlynnt vegna þess að það er með þessum hætti.

Ég lýsi mig aftur mótfallna því að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu, þannig að það komi fram aftur, því að þingmenn fara með stjórnskipunarvaldið í umboði landsmanna á milli kosninga, alveg eins og framkvæmdastjórn hjá fyrirtæki fer með vald fyrirtækisins á milli aðalfunda. Það er svo ótrúlega einfalt, en það er sífellt verið að reyna að breyta umræðunni í þá veru eins og gert er með þessu frumvarpi.

Ég ætlaði ekkert að minnast á þær tillögur sem nú er búið að ýta út af borðinu, en úr því að þingmaðurinn spyr um það þá hafna ég því að fjármálalegir gjörningar og (Forseti hringir.) samningar við erlend ríki geti ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að hefði (Forseti hringir.) það verið með þeim hætti í núgildandi stjórnarskrá sætum við uppi með allan Icesave-kostnaðinn, vextina af því öllu saman.