141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar og sjónarmið. Þau eru víða til staðar og það eru margir þeirrar skoðunar að betra sé að Alþingi ákveði breytingar á stjórnarskrá, reyndar á tveimur þingum og kosningum á milli. Hins vegar leiðir það af 79. gr. af því að það þarf að rjúfa þing þegar búið er að samþykkja breytingar á stjórnarskrá, þær eru alltaf gerðar síðast á kjörtímabili. Það er bara þannig. Menn vita að það þarf að rjúfa þing, þess vegna eru slíkar breytingar samþykktar undir lok kjörtímabils eins og við gerum núna, það er verið að ræða það núna einmitt undir lok kjörtímabilsins til þess að færa sér það í nyt að hvort eð er eigi að rjúfa þing.

Ég sé ekki fyrir mér að annar háttur yrði hafður á af því að menn þurfa að leysa heilmikið af vandamálum alla daga og eru ekki tilbúnir til að hverfa frá því verkefni til þess að breyta stjórnarskrá. Svo man ég ekki til þess að mikið hafi verið minnst á stjórnarskrárbreytingar í kosningunum 1995, enda var tiltölulega góð sátt um þær breytingar. En það er ekkert í þessum tillögum í 79. gr. sem segir að það þurfi að vera sátt um það þó að menn hafi notað það sem reglu áður. Það hefði mátt betur gera það núna, þ.e. að gera kröfu um meiri sátt og taka meira tillit til þeirra andstæðu sjónarmiða sem komið hafa fram, t.d. varðandi auðlindaákvæðið og mörg önnur ákvæði, og taka stjórnarskrárbreytingarnar í minni bitum þannig að það yrði viðráðanlegt.

Ég held hins vegar að þjóðin sé fullfær um að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Ég vil reyndar hafa nokkuð háa þröskulda þannig að ekki sé verið að breyta stjórnarskránni sí og æ, eins og fram kom hjá hv. þingmanni að gert væri sums staðar.