141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka góð orð frá hv. þingmanni í minn garð. Ég er ekki að reyna að flengja einn eða neinn, ég er fyrst og fremst að taka undir með og styðja þær tillögur sem fram hafa komið frá formönnum stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, svo og Bjartrar framtíðar. Ég tel þær vera skynsamlegar.

Mér finnst hv. þingmaður opna á umræðu sem er vert að taka, þ.e. hvort við gætum náð samkomulagi um að skoða þessar tillögur. Þarna er lögð fram þingsályktunartillaga um nefnd og það má eflaust hugsa sér hana með ýmsu móti. Þarna er gerð tillaga um girðingar. Ég skal játa að ég hef ekki sett mig svo ýkja vel inn í umræðuna um þessi hlutföll, en ég hefði haldið að 2/3 hlutar á Alþingi og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla, með hreinum meiri hluta en þó þannig að fjórðungur kjósenda standi þar að baki, séu býsna háar girðingar. Mér finnst sjálfum það vera heppilegra fyrirkomulag að skjóta málinu til þjóðarinnar í stað þess að skjóta því til annars þings. Mér finnst það vera miklu heppilegri máti en það fyrirkomulag sem við höfum.

Ég vek athygli á því að samkvæmt þessum tillögum, samkvæmt þessu frumvarpi, er gert ráð fyrir því að hægt sé að fara báðar leiðir, alla vega að svo stöddu, alla vega áður en breytingar yrðu gerðar á.