141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að við séum bundin af þjóðaratkvæðagreiðslunni sem átti sér stað eða skoðanakönnuninni, það er líka hægt að kalla hana það. Ég er sammála honum um ákveðna leiðsögn sem varðar t.d. kirkjuákvæði og spurningarnar sem eru meira „konkret“ í sjálfu sér. Hins vegar er ég algjörlega ósammála honum um að þjóðin hafi veitt samþykki sitt varðandi það að láta tillögurnar algjörlega óbreyttar. Af hverju segi ég það? Jú, því við höfum meðal annars leitað til Feneyjanefndar og þingið er búið að gera stórfelldar breytingar á frumvarpinu sem slíku sem eru algjörlega óræddar. Hvað sagði Feneyjanefndin? Feneyjanefndin sagði að hér mundi ríkja stjórnskipuleg óvissa. Hér yrði stjórnarkreppa. Hver var það sem talaði um það fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna? Enginn. Enginn forustumaður í ríkisstjórn gerði það eða forustumaður flokka. Það var enginn sem kom hreint fram við þjóðina og sagði: Þetta eru líklegar afleiðingar ef við samþykkjum tillögur stjórnlagaráðs.

Þannig að ég segi, hvað það atriði varðar, að þá höfum við ekki farið nægilega út í umræðuna um hvaða afleiðingar slíkar breytingar hefðu í för með sér.

Síðan get ég tekið umræðu um það, og ég mun fara inn á það í ræðu minni varðandi eignarréttinn, að ég er einfaldlega í íhaldssamari kantinum. Þar hef ég aðra skoðun en hæstv. ráðherra og eflaust á öðrum þáttum.

Hvað varðar sérstaklega fyrstu spurninguna segi ég: Þjóðin var ekki upplýst um innihaldið að mínu mati. Hún var ekki upplýst á sama veg. Feneyjanefndin kom síðan fram með sínar ábendingar.

Ég vil undirstrika það sem ég sagði hér áðan um breytingarnar og ég segi það ekki síst í ljósi þess hvernig málin hafa þróast, ég hef eiginlega fests í þeirri skoðun að breytingarákvæðið þurfi að vera mjög íhaldssamt þegar við sjáum að sumir stjórnmálamenn hlaupa mjög eftir veðri og vindum og eftir því hvað er inni og hvað er úti í samfélaginu hverju sinni.

Þess vegna segi ég að hin mikla þátttaka í gegnum kosningar er mikilvæg fyrir okkur. Hún er ákveðin leiðsögn til okkar sem viljum huga að breytingum á breytingarákvæðinu, að það þarf (Forseti hringir.) að gera ríkar kröfur um þátttöku. Það þarf að gera ríkar kröfur til þeirra sem samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Þess vegna (Forseti hringir.) segi ég: 25% kosningarbærra manna er allt of lágur þröskuldur.