141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að atriði eins og auðlindaákvæði hafa fengið mikla umræðu. Hins vegar er ekki rétt að við séum komin þar að endapunkti eða komin með tillögu á borðið sem hægt er að taka skýra afstöðu til. Ég minni á að fyrir ekki meira en viku, tíu dögum, lagði Framsóknarflokkurinn fram tillögu um auðlindaákvæði, sitt innlegg til umræðunnar og varð fyrir harðvítugum árásum í þessum sal. Þetta var auðlindaákvæði, allir sáu að þetta var ákvæði um þjóðareign á auðlindum, en þetta var ákvæði sem talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar voru ekki sáttir við. Þeir voru ósáttir við útfærsluna.

Það er einmitt það sem er eftir varðandi auðlindaákvæðið, menn eiga eftir að ná saman um útfærsluna. Menn eru sammála um að það eigi að setja slíkt ákvæði inn en eru ósammála um útfærsluna. Og atburðir síðustu daga í þinginu sýna að menn eru ekki komnir á þann punkt.

Sama á við um önnur atriði sem hafa verið að sönnu umdeild í langan tíma að menn eru ekki komnir að niðurstöðu. Þá er ég ekki síst með í huga stjórnkerfisþáttinn sem hæstv. innanríkisráðherra gerði að hluta til að umtalsefni, um stöðu ráðherra í ríkisstjórn, stöðu forsætisráðherra, stöðu ráðherra á Alþingi og annað þess háttar. Þessir hlutir hafa vissulega fengið umræðu, en erum við komin á endapunkt í því? Erum við búin að komast að niðurstöðu? Höfum við náð saman um útfærslu? Hvers konar stjórnkerfi, stjórnskipulagi, ætlum við að koma á ef við segjum: Við ætlum að leggja til grundvallar tillögur stjórnlagaráðs? Hvers konar stjórnskipulag fáum við? Þingræði? Forsetaræði? Sambland af þessu tvennu? Sambland af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði? Hvernig munu þessir mismunandi þættir vinna saman? Veit það einhver, hæstv. forseti? Getur einhver svarað því? (Forseti hringir.)