141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Um útfærslu á því meginmarkmiði að stuðla að ríkari aðskilnaði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds höfum við ekki komist að niðurstöðu um, það er alveg rétt. Ég nefndi dæmi um tæknilega útfærslu sem við kynnum að þurfa að ræða betur.

Varðandi auðlindirnar held ég að það ákvæði verði að taka út fyrir sviga að því leyti að ágreiningurinn snýr ekki að útfærslunni, hann snýr að sjálfu grundvallaratriðinu. Það var það sem mér fannst koma svo rækilega fram í málflutningi Framsóknarflokksins um daginn þegar hann talaði um kvótann, framseldar náttúruauðlindir, sem afleidd eignarréttindi varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem er eignarréttarákvæðið. Þarna skilja einfaldlega leiðir. Þótt við getum náð samkomulagi um sum efni vegna þess að ágreiningurinn er tæknilegs eðlis, eru önnur efni pólitísk, sem eru grundvallarmál og við munum ekkert ná saman um.

Ég held að við munum ekki ná saman um það með Sjálfstæðisflokknum og frjálshyggjumönnum að náttúruauðlindirnar eiga að vera svona að einhverju leyti í þjóðareign. Þarna er grundvallarágreiningur sem við eigum einfaldlega að greiða atkvæði um vegna þess að umræðan hefur farið fram. Ég vil gera skýran greinarmun á þessu annars vegar og hins vegar tæknilegum úrlausnarefnum sem við reynum að ræða okkur saman fram til niðurstöðu um. En það eru til mál sem eru þess eðlis að við getum ekki náð saman um. Þess vegna erum við og eigum að vera í mismunandi stjórnmálaflokkum. Því að (Forseti hringir.) það skipulagsform er um slík grundvallarmál og ólíka sýn á þau.

(Forseti (SIJ): Forseti vill beina því til hæstv. ráðherra og hv. þingmanna að ávarpa forseta rétt og beina máli sínu til hans.)