141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er komið til 2. umr. þetta litla frumvarp sem við lögðum fram saman, formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, í því skyni að rjúfa það þrátefli sem hafði myndast í umræðum á Alþingi um meðferð heildarendurskoðunar á stjórnarskrá. Okkur er kært það ferli sem hafist var handa um, um heildstæða endurskoðun stjórnarskrárinnar, og við máttum ekki til þess hugsa að það yrði á endanum fórnarlamb málþófs og ekkert yrði úr stjórnarskrárumbótum sem margir vítt og breitt í samfélaginu binda miklar vonir við.

Við horfðum til þess þegar við lögðum málið fram að fyrir lá að frumvarpið, heildarendurskoðunin, var að koma frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með víðtækum breytingartillögum, þar með talið var stjórnskipunarkaflinn í fyrsta skipti að koma inn í þingið, alveg eins og hann lagði sig, því að hann hafði ekki áður komið til 2. umr. Við töldum einfaldlega sama hvernig því máli væri velt við, það væri ekki raunhæft eða skynsamlegt að ætla að geta lokið slíkri heildarendurskoðun með öllum þeim fjölþættu þáttum sem átti eftir að ræða á þeim stutta tíma sem lifði þings og fram að kosningum. Mat okkar var einfaldlega þannig að það væru efnisrök fyrir því að menn gætu þess vegna talað í einhverjar vikur um þetta mál og haft fyrir því mjög góð rök. Eins og til dæmis hæstv. innanríkisráðherra nefndi áðan eru fjölmargir þættir í þessu máli misvel ræddir og misvel útfærðir og hafa fengið mismikla umræðu í þingsal og kalla á mismikla umræðu af hálfu einstakra þingmanna.

Þess vegna var það mat okkar að við ættum að leggja fram tillögu um lausn sem gæti gert hvort tveggja í senn; tryggt framgang stjórnarskrárumbóta en líka góða og vandaða meðferð málsins. Við leituðum auðvitað í þann grunn sem við höfðum til að byggja á. Hvað lagði stjórnlagaráð sjálft til grundvallar við sína vinnu? Hver var grunnur þess? Jú, meðal annars ályktunarorð siðfræðikaflans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Og hvað segir þar? Að vandinn í íslenskri stjórnskipun og stjórnmálalífi sé ekki síst falinn í veikri stefnumótun, það sé ekki nægjanlega byggt á rannsóknum og greiningu og ráðum sérfræðinga. Það sé skortur á virðingu fyrir lögum og vinnureglum. Lagafrumvörp séu ekki nægjanlega vel undirbúin. Mál séu oft keyrð í gegn í ágreiningi og andstæðar skoðanir séu þaggaðar niður. Þetta eru ályktunarorð siðfræðikafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þetta er grunnurinn undir vinnuna sem við höfum rætt hér af hálfu stjórnlagaráðs, að taka á þessum vandamálum. Auka rétt minni hlutans til dæmis.

Þess vegna töldum við rétt að koma með málamiðlun sem gerði öllum fært að finna leið út úr þessari stöðu, standa vörð um þá góðu vinnu sem hafði verið unnin og tryggja henni farveg áfram. Þá komum við að vanda hinna botnfrosnu stjórnmála á Íslandi. Það þarf kannski alvitlaust fólk til að láta sér detta í hug að stíga inn á það svið og reyna að brjóta upp hina hefðbundnu fylkingarpólitík íslenskra stjórnmála en við gerðum það nú samt og tilboðið var þetta, um hófsamar breytingar, um skynsamlega leið fram á veginn. Fyrir þessari tillögu sem við lögðum fram er meiri hluti á Alþingi. Það er meiri hluti á Alþingi og við göngum mjög hóflega fram. Við leggjum bara til breytingarákvæði og við leggjum líka til þingsályktunartillögu og svo er hér komin fram breytingartillaga um auðlindaákvæði. Það eru auðvitað efnisrök fyrir því að um hana geti gilt annað en aðrar efnisbreytingar, út frá því sem hæstv. innanríkisráðherra rakti áðan réttilega um langa umræðu um auðlindaákvæðið í þessum sal. Líklega eru fá ágreiningsefni á sviði stjórnskipunar meira rædd en nákvæmlega það, allt frá niðurstöðu hinnar ágætu auðlindanefndar frá árinu 2000.

Við flutningsmenn þessara mála höfum gert allt til að afla málinu víðtækara fylgis. Við höfum gert allt til að fara með friði. Við höfum verið tilbúin að nálgast hverja athugasemd með opnum huga og við höfum sagt formönnum stjórnarandstöðuflokkanna það frá upphafi. Við höfum sagt að við værum tilbúin að ræða aðrar útfærslur ef þeir vildu vera með okkur á málunum og við höfum gert allt í meðförum málsins til að auðvelda það. Þannig er til dæmis breytingarákvæðið, sem við ræðum núna, gerbreytt frá því sem var í upphaflegu frumvarpi okkar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í nefndinni undir góðri forustu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hefur verið lagt allt kapp á að leita víðtækrar samstöðu. Og hvaða fyrirmynd fundum við? Jú, við fundum fyrirmynd hjá sjálfstæðismönnum sjálfum. Breytingarákvæði sem þáverandi hv. þm. Björn Bjarnason og hv. þm. Birgir Ármannsson fluttu árið 2009 um breytingar á stjórnarskrá. Við sniðum breytingarákvæðið beinlínis að því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður flutt sjálfur — svona langt erum við tilbúin að ganga í samkomulagsátt. Við gerum engan ágreining, við skulum gera þetta á þeim forsendum sem Sjálfstæðisflokkurinn vill.

Samt taka menn hér hamskiptum og hv. þm. Birgir Ármannsson ber af sér ungæðisskap sinn í hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar á fyrri tíð og telur þær einhvers konar vitni um stórfellt frjálslynt gönuhlaup sitt á árum áður. Ég vil nú taka hv. þm. Birgi Ármannsson alvarlega og trúa því að hann hafi meint það sem hann sagði árið 2009. Þess vegna bið ég Sjálfstæðisflokkinn um þetta, ef hann treystir sér ekki til að styðja eigin verk frá árinu 2009: Er hann tilbúinn að leyfa þessu að koma til atkvæða? Við biðjum ekki um annað, að við fáum þá að taka ábyrgð á öllu þessu hörmulega sullumbulli sem er náttúrlega ekkert annað en hugverk hv. þm. Birgis Ármannssonar og hv. fyrrverandi þingmanns Björns Bjarnasonar. Við erum tilbúin að bera ábyrgð á því ábyrgðarleysi sem þessir hv. þingmenn báru fram á sínum tíma. Við erum tilbúin að sæta ábyrgð fyrir það. Gefið okkur bara leyfi til að málið fái að ganga til atkvæða.

Sama má segja um auðlindaákvæðið. Þar hafa hv. þm. stjórnarflokkanna lagt fram breytingartillögu um auðlindaákvæðið í þeirri mynd sem það kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við höfum verið tilbúin til samtals um það og erum það enn þá, en enn og aftur spyr ég: Ef menn eru ekki tilbúnir til að koma til samtals um það eru þeir þá tilbúnir að leyfa okkur að ganga til atkvæða um það eins og það stendur? Við erum tilbúin að semja um það milli 2. og 3. umr. Við erum tilbúin að semja um það núna. Ég er búinn að ræða það við hv. formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að við séum tilbúin til þess. Ég hef reynt að finna leiðir til þess, með aðstoð sérfræðinga, að finna það sem sameinar okkur í auðlindaákvæði, halda auðvitað til haga þeim efnislegu grundvallaratriðum sem verða að vera í slíku ákvæði eins og hæstv. innanríkisráðherra rakti ágætlega áðan.

Það væri auðvitað nauðsynlegt að tiltekin efnisatriði væru í ákvæðinu en samt að menn reyndu að feta leið sem þeir gætu sameinast um. Eru menn tilbúnir að setjast yfir hana? Þeir hafa ekki verið það enn þá, en dyr okkar eru alltaf opnar. Við erum tilbúin að vinna þetta áfram. Við erum tilbúin að tala okkur saman til sáttar um auðlindaákvæði. En það er athyglisvert og erfitt að upplifa það, nú þegar við reynum að brjótast út úr þessari stöðu, þegar við reynum að hreyfa eitthvað í þá ömurlegu stöðu, sem er auðvitað engum samboðin, að stjórnarskrá og umræður um breytingar á henni séu komnar í þetta far, að sjá andstöðu úr báðum áttum. Að sjá að að það ágæta fólk sem lagði fram svona breytingarákvæði fyrir nokkrum árum sé tilbúið að hóta því að vilja ekki afgreiða slíkt frumvarp núna, sem felur í sér sama breytingarákvæði og lagt var fram fyrir nokkrum árum.

Það er auðvitað líka dapurlegt að sjá andstöðuna úr hinni áttinni þar sem þeir keppast um að skemma fyrir okkur sem vilja slá sig til riddara fyrir að reyna að keyra málið allt í gegn, sama hvað það kostar, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir. Hún leggur hér fram alveg furðulega breytingartillögu sem er eiginlega þannig að maður hefði ekki haft ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að hægt væri að búa hana til. Það er þeim mun undarlegra að heyra hana og félaga hennar úr Hreyfingunni tala gegn þessari málamiðlunartillögu þegar haft er í huga að hún var meðflutningsmaður á tillögu hv. þm. Péturs Blöndals um breytingarákvæði á stjórnarskrá síðasta haust. Maður verður að segja þegar maður horfir á þessi sinnaskipti hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur: Er hráskinnaleikurinn eini leikurinn sem hægt er að leika á Alþingi Íslendinga? Er það þannig að enginn meini neitt með því sem hann segir? Er það þannig að ómögulegt sé að taka afstöðu í grundvallarmálum frá því í haust, nú eða fyrir nokkrum árum, og flytja hana hér fram og búast við því að flutningsmennirnir frá því þá séu tilbúnir að standa aftur við það sem þeir sögðu þá, í dag?

Virðulegi forseti. Íslensk stjórnmál eru í miklum vanda og það er vandi þjóðarinnar. Við formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson höfum gert allt sem við höfum getað gert til að reyna að brjótast út úr þessari stöðu. Við erum stolt af því að hafa gert það, ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægt, en það er auðvitað vandasamt fyrir okkur að vinna úr því ef stjórnmálin eru svo botnfrosin að ekki sé hægt að ganga fram með góðum hug og reyna að brjóta upp svona stöðu. Að ekki sé hægt að tala fyrir því að menn losi sig úr viðjunum, að þeir hristi af sér klakaböndin og hugsi eitthvað nýtt. Við erum bara að biðja um opið og fordómalaust samtal og við erum til viðtals um það. Ég neita að trúa því að skilaboð þingsins til þjóðarinnar séu þau að þingið sé ekki einu sinni tilbúið til að leyfa að hér komi til atkvæða einfalt frumvarp um hóflegan framgang þessa máls sem allir flokkar ættu að geta sætt sig við, ef það væri vottur af sanngirni og samkvæmni í málflutningi þeirra og afgreiðslu mála á þingi.