141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það má kannski líkja breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur við tundurskeyti enda held ég að henni hafi verið ætlað að eyðileggja þessa tilraun til samninga. Ég get hins vegar sagt það að breytingartillagan um auðlindaákvæðið felur í sér tillögu frá þingmönnum úr stjórnarliðinu um það hvernig það ákvæði á að líta út. Eins og ég sagði áðan hef ég margoft boðið upp á samtal um það mál og ég er tilbúinn til samtals um það hvar og hvenær sem er. Það er hægt að samþykkja þá breytingartillögu hér og þess vegna gera breytingar milli 2. og 3. umr. og ég er opinn til samtals um það. Ég held að ég tali fyrir munn stjórnarliðsins alls að við erum tilbúin til að ræða um útfærslur á auðlindaákvæði sem geti hentað öllum. (Gripið fram í.) En það er ekkert óeðlilegt við að lagt sé fram þetta auðlindaákvæði hér enda er þetta frumvarp ekki lengur um tímabundið breytingarákvæði, nefndin breytti því í meðförum sínum.

Varðandi spurningar hv. þingmanns að öðru leyti hef ég ekki tíma til að svara meiru, en eitt ætla ég að segja: (Forseti hringir.) Ég treysti mér alveg til að bera ábyrgð á afgreiðslu málsins á þessum forsendum, ég skal útskýra það betur í seinna andsvari.