141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði áðan um það vandamál sem hráskinnaleikurinn í þessum sal er og að menn segi eitt í dag og annað á morgun. Vandamálið er nú að hv. þingmenn Hreyfingarinnar virðast vera orðnir algjörir snillingar í þessum leik. Það sem fyrir okkur formönnum flokkanna vakir er (BirgJ: Í hvaða leik?) að finna leið til þess að stjórnarskrárumbætur ónýtist ekki og búa til farveg til þess að hægt sé að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili vegna þess að við óttuðumst að málið væri að talast í kaf. Þess vegna leggjum við fram frumvarp um breytingarákvæði (Gripið fram í.)

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, segir núna hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, óttaðist það í haust að þingið mundi ekki klára málið. Og hvernig brást hún við? Jú, nákvæmlega eins og við formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og lagði fram frumvarp um breytingarákvæði á stjórnarskrá. Við erum óalandi og óferjandi fyrir þetta val og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir tekur sér það nú fyrir hendur að reyna að eyðileggja þessa tilraun okkar og sprengja hana í loft upp af sínum eigin prívathagsmunum, sérhagsmunum, og engu öðru.