141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn að velta ábyrgð á einu eða neinu af mínum verkum yfir á hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. (BirgJ: Þú ert að segja að hún sé að eyðileggja málið.) Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir virðist ekki skilja að stjórnmál geti snúist um að koma hreint og heiðarlega framan að fólki. Það gerði ég, ég hafði umboð míns þingflokks, ég hafði (Gripið fram í.) fullt samráð við formann Vinstri grænna sem hafði fullt umboð úr sínum þingflokki. (Gripið fram í.) Við komum beint fram gagnvart öðrum flokkum og hv. þingmaður sat á fundum með okkur þar sem við buðum henni opið til samstarfs um þessi mál. Við vorum tilbúin að ræða alla hluti fyrir opnum tjöldum. Hv. þingmaður virðist vera aðdáandi klækjastjórnmála og skilur það ekki (BirgJ: Margur heldur mig sig.) hvernig komið er fram við fólk. (Forseti hringir.)

Við komum hreint fram við fólk í þessu máli, við buðum öllum til samstarfs, þar á meðal hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Ég var í sambandi við hana langt fram yfir miðnætti að senda henni drögin að þingsályktunartillögunni og drögin að frumvarpinu, bjóða henni að vera með, bjóða henni að koma til leiks og var í samtali við hana alveg þar til þetta var lagt fram hér í þinginu.