141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg frá því að við formennirnir lögðum fram þessa hugmynd okkar og þessa tillögu höfum við rætt um það að til viðbótar breytingarákvæði og þingsályktunartillögu mundum við vilja sjá samstöðu um þau atriði sem væru mikið rædd og víðtæk samstaða gæti myndast um. Auðlindaákvæðið er einn augljósasti þáttur þess enda hafa allir flokkar flutt auðlindaákvæðið á síðustu árum.

Ég sé enga þversögn í því að þingflokksformenn stjórnarflokkanna leggi fram auðlindaákvæði enda, eins og ég segi, erum við til viðtals um efni þess. Við erum til samninga um útfærslur þar og höfum ítrekað sagt það á fundum með formönnum annarra flokka og nákvæmlega eins og í hinu upphaflega frumvarpi okkar, þar sem við lögðum fram breytingarákvæði í samræmi við það sem kom fram frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sýndum við síðan í vinnslu málsins í nefndinni að við vorum tilbúin til að vinna það áfram og það breytingarákvæði hefur tekið miklum breytingum.

Það sama erum við tilbúin að gera hvað varðar auðlindaákvæðið, við erum tilbúin að (Forseti hringir.) setjast niður með stjórnarandstöðunni og vinna það áfram hvort heldur er núna áður en málið kemur til afgreiðslu í 2. umr. (Forseti hringir.) eða á milli 2. og 3. umr.