141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum tilbúin að ræða hvað sem er eins og við höfum sýnt með þeim breytingum sem hafa orðið á breytingarákvæðinu í nefnd. Við förum þar einungis að tillögu hinna víðfrægu uppreisnarseggja, hv. þm. Birgis Ármannssonar og fyrrverandi þingmanns Björns Bjarnasonar sem lögðu fram svona frumvarp með þessum þátttökuþröskuldi. Þeir hafa nú ekki verið ásakaðir fyrir ævintýramennsku hingað til en ég vil þá glaður vera jafnmikill ævintýramaður og þeir tveir.

Að því er varðar auðlindaákvæðið þá er það nú þannig að það er hægt að finna samstöðu. Hún verður ekki fundin með köpuryrðum í ræðustól Alþingis og auðvitað var það ekki gott að hér spunnust umræður um hugmyndir framsóknarmanna um auðlindaákvæði sem þeir tóku óstinnt upp. Það sýnir betur en annað að það er mikilvægt að ræða þetta mál, að setjast niður og vera tilbúin að ræða það opið. Við höfum margoft boðið upp á það, ég bauð formönnum flokkanna síðast upp á það núna um helgina. Ég er hvenær sem er tilbúinn að ræða fordómalaust um útfærslur á auðlindaákvæði.