141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili ekki við hv. þingmann um það að tíminn til heildarafgreiðslu stjórnarskrármálsins í því formi sem það var var orðinn naumur. Þess vegna komum við fram með þessa tillögu. En tillagan sem við höfum nú lagt fram er málefnaleg, hún er hógvær og fyrir henni er þingmeirihluti. Hún er ekki í ósamræmi (Gripið fram í.) við það sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram áður heldur þvert á móti nákvæmlega sama breytingarákvæði og þeir hafa lagt fram áður.

Þá verð ég nú bara að segja við formann Framsóknarflokksins: Hvar eru efnisrökin fyrir því að samþykkja það ekki? Að því er varðar auðlindaákvæðið þá tek ég undir það, eins og ég sagði áðan. Ég harma það að hér varð tog í ræðustól Alþingis um auðlindaákvæðið. Lexían sem rétt er að draga af því er að það á ekki að vera í samningaviðræðum um orðalag auðlindaákvæða í ræðustól Alþingis. Dyr mínar eru alltaf opnar. Við erum alltaf tilbúin að ræða um efnisþætti auðlindaákvæðisins.