141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég hef farið ítarlega yfir breytingartillöguna, sem nú er til umræðu, um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni hefur auðlindaákvæðið verið rætt ítarlega undanfarin 15 ár og var rætt mikið árið 2000 þegar tillaga auðlindastefnunefndar kom fram. Einnig var auðlindaákvæðið rætt ítarlega í þingsal vorið 2009 og síðan aftur á þessu kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Munurinn á þeirri tillögu sem við leggjum fram núna og á tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 varðar einkum skilgreiningu á þjóðareign. Tillagan frá árinu 2000 lætur við það sitja að fela löggjafanum að ákveða hvaða náttúruauðlindir og landsréttindi séu þjóðareign en tillagan sem nú er rædd skilgreinir hins vegar allnákvæmlega hvað falli undir hugtakið náttúruauðlindir í þjóðareign og gerir ráð fyrir að löggjafinn geti einnig útfært nánar hvað falli undir þjóðareignarhugtakið. Einnig eru takmarkanir á ráðstöfunarrétti yfir tilteknum öðrum réttindum í ríkiseigu því að tillagan sem við ræðum setur hömlur við varanlegu framsali réttinda yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindum, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess, en ekki er fjallað um þær auðlindir sem lúta að einkaeignarrétti ríkisins í tillögunni frá árinu 2000.

Tillagan sem hér er rædd setur réttindum landeigenda takmörk að því er varðar auðlindir djúpt í jörðu en enga slíka reglu er að finna í tillögunni frá árinu 2000. Og sett eru skilyrði fyrir því að leyfi séu veitt til afnota eða hagnýtingar auðlinda. Talað er um eðlilegt gjald og að tímalengdin skuli vera hófleg og slík leyfi skuli einungis veitt á jafnræðisgrundvelli.

Stefnumótun hefur átt sér stað á undanförnum árum. Umræðan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá hefur þróast í gegnum ýmis stefnumarkandi mál, eins og ég vék að í máli mínu fyrr í ræðunni. Þar er náttúrlega helst að nefna skýrslu forsætisráðherra varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins frá árinu 2010, orkustefnu fyrir Ísland, skýrslu stýrihóps um mótun heildstæðrar orkustefnu frá 2011 og síðan skýrslu auðlindastefnunefndar frá árinu 2012. Í skýrslu sáttanefndar um fiskveiðistjórn var eðlilega líka fjallað um skilgreiningu á auðlindum í þjóðareign. Niðurstaða þess starfshóps, að undanskildum fulltrúum LÍÚ, var sú að starfshópurinn taldi nauðsynlegt að skýrt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, og þar með talið auðlindum sjávar, komi í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þar voru allir sammála nema fulltrúar frá LÍÚ af einhverjum ástæðum.

Virðulegi forseti. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn var þjóðin spurð spurningarinnar: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Já, sögðu 84.760 kjósendur, eða 82,9% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú hafa menn sagt: Það er ekkert að marka vegna þess að kjörsókn var svo lítil. En, virðulegi forseti, ef kjörsókn hefði verið 70% og allir sem bættust við hefðu sagt nei við þeirri spurningu þá hefði niðurstaðan samt verið sú að þeir sem sögðu já hefðu verið fleiri en þeir sem sögðu nei. Þessi niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni var því mjög eindregin.

Við flutningsmenn þessarar tillögu teljum að við eigum að hlýða þessu kalli fólksins í landinu. Allir stjórnmálaflokkar hafa talað um mikilvægi þess að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá, málið hefur verið rætt bæði hér í þessum sal, margsinnis, og eins fyrir utan hann. Ég tel því að málið sé fullrætt og fullþroskað og tími til kominn að tekin verði afstaða um það og við fáum að greiða atkvæði um málið hér í þingsal.