141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo að allir fulltrúar stjórnmálaflokka á þingi hafa talað um mikilvægi þess að auðlindaákvæðið sé í stjórnarskrá. Eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni er þetta ákvæði sem við flutningsmenn þessarar breytingartillögu teljum vera fullrætt. Í rauninni átti ekki að koma neinum á óvart að tillagan kæmi fram vegna þess að í samtölum formanna stjórnarflokkanna við fulltrúa stjórnarandstöðunnar hefur það alltaf komið fram. Ég veit að formaður Samfylkingarinnar talaði reyndar líka um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðsluna, lýðræðisumbæturnar og það hefur formaður Sjálfstæðisflokksins einnig talað um. Það er hins vegar ákvæði sem ekki hefur fengið eins langt umræðuferli og auðlindaákvæðið.

Formaður Samfylkingarinnar flutti ræðu fyrr í dag þar sem hann tók skýrt fram að vilji menn ræða tillöguna eins og hún er lögð fram þá erum við tilbúin til þess þannig að við getum fundið flöt á lausninni. En ég held að ljóst sé í gegnum umræðuna sem fram hefur farið að grundvallarágreiningurinn og grundvallaratriðin eru komin fram og þess vegna er mikilvægt að fá að greiða atkvæði um þessa tillögu.

Ég get ekki talað fyrir aðra þingflokka, en af því að hv. þingmaður spurði hvort von væri á fleiri breytingartillögum þá er ekki von á fleiri breytingartillögum úr þingflokki Samfylkingarinnar.