141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður segir að búið sé að ræða þessi mál í mjög langan tíma, einn eða einn og hálfan áratug. Það var búið að ræða það jafnlengi þegar þetta frumvarp var lagt fram. Það er ekki nema ein vika á milli breytingartillögunnar og frumvarpsins hjá formönnum stjórnarflokkanna og því til áréttingar vil ég spyrja hv. þingmann af hverju þessi tillaga var ekki rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta er tillaga meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en engin efnisleg umræða hefur átt sér stað í nefndinni, það lofar einhvern veginn ekki góðu.

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þessi tillaga hér setja málið dálítið niður og verið er í rauninni að fara í öfuga átt við þá tillögu sem lögð var hér fram og þetta frumvarp, sem ég nálgaðist í 1. umr. með mjög jákvæðum hætti. Mér fannst það skynsamleg tillaga hjá forustumönnum stjórnarflokkanna og hefði viljað ræða hana efnislega eina og sér en ekki að blanda til viðbótar einhverjum öðrum tillögum.

Hv. þingmaður segir réttilega að hún geti ekki svarað fyrir það hvort fleiri breytingartillögur komi (Forseti hringir.) en hægt er að færa rök, sömu rök og hv. þingmaður gerði, fyrir mörgum öðrum breytingartillögum við 3. umr.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann, ein mínúta.)