141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðu hans. Ég sé að það hefur ekki veitt af því að fara fram á tvöfaldan ræðutíma í þessu mikilvæga máli því að þingmaðurinn fór langt fram yfir ræðutíma sinn hefði verið um einfaldan ræðutíma að ræða. Ég skil ekki alveg hvert þingmaðurinn er að fara frekar en aðrir þeir sem eru flutningsmenn á þessum breytingartillögum sem hér liggja fyrir. Að mínu mati er breytingartillagan sem hann er flutningsmaður á um auðlindaákvæðið og breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur ekki þingtækar við þetta mál vegna þess að þær koma inn sem breytingartillögur við breytingarfrumvarp sem liggur fyrir til umræðu. Þessar tvær breytingartillögur ættu að liggja fyrir fundinum sem sjálfstæð frumvörp en ekki með þessum hætti.

Þingmaðurinn sýndi að hann er vel að sér í framsóknarfræðum, svo vel að ég var nú að hugsa um að prenta út inntökubeiðni í Framsóknarflokkinn. Hann virðist að minnsta kosti hafa þekkingu á stefnu Framsóknarflokksins ársins 2009, en ég vil benda þingmanninum á að við framsóknarmenn héldum flokksþing nú á þessu ári og höfum því uppfært stefnumörk okkar. Þetta væri svipað og ég færi að tala um að skjaldborg heimilanna sem ríkisstjórnin lofaði breyttist í umsátur um heimilin og svo þurfum við ekki að minnast á ESB-svik Vinstri grænna.

Mig langar til að spyrja þingmanninn út í þau orð sem ég á erfitt með að skilja og skil ekki þann spuna sem er keyrður hér vegna þessa frumvarps sem við ræðum nú, breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Hvað er því til fyrirstöðu að halda áfram með þá vinnu sem hefur verið hér í þinginu frá því lýðveldið Ísland var stofnað, að vera með stjórnarskrána í sífelldri endurskoðun? Það þarf ekki breytingarákvæði við stjórnarskrána til (Forseti hringir.) að halda áfram þeirri vinnu í þinginu því að við höfum góða grein í stjórnarskránni sem leyfir þessar breytingar.