141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli harðlega þessum ummælum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Staðreyndin er sú að það er ekki kosið um stjórnarskrárbreytingar í almennum þingkosningum. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma hér og segja það. (Gripið fram í.) Staðan er sú að samkvæmt gildandi stjórnarskrá gæti knappur meiri hluti á Alþingi eins og var hér á 10. áratugnum, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ákveðið (Gripið fram í.) breytingar á stjórnarskrá. Síðan eru alþingiskosningar sem snúast um aðra hluti, og það er sami meiri hluti áfram, kannski áfram knappur, og hann getur afgreitt breytingar á stjórnarskrá án þess (Gripið fram í.) að tryggja einmitt hina breiðu samstöðu sem þingmaðurinn kallar eftir en meinar greinilega lítið með vegna þess að breytingartillagan sem hér liggur fyrir gengur út á að aukinn meiri hluti á Alþingi, 2/3, þurfi að afgreiða stjórnarskrá. Er það ekki breiður stuðningur? Er það ekki trygging (Gripið fram í.) fyrir því að það sé breiður stuðningur við breytingar á stjórnarskrá? Síðan fer stjórnarskráin beint og milliliðalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin tekur afstöðu sérstaklega um þau álitamál sem eru uppi í stjórnarskrármálinu.

Er þingmaðurinn á móti þessu? Er framsóknarþingmaðurinn virkilega á móti þessu, þegar Framsóknarflokkurinn hefur sjálfur sagt í sínum samþykktum að það eigi að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og það eigi að koma ný stjórnarskrá? Svo kemur flokkurinn hér með helsta talsmann sinn í réttarríkinu og stjórnskipan landsins, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, og kannast bara ekkert við þetta allt saman og vill halda þessu eins og þetta hefur verið, sem hálfgerðu nátttrölli. Það er það sem hv. þingmaður er í raun að boða. Ég hafna því algjörlega, ég tel og hef sannfæringu fyrir því að sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir um það hvernig á að fá fram breytingar á stjórnarskrá sé miklu lýðræðislegri leið og milliliðalausari gagnvart þjóðinni en sú aðferð sem við búum við í dag.