141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ágæta ræðu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði þegar hann lauk andsvari sínu rétt áðan, það er nefnilega beint úr greinargerð með frumvarpi mínu um breytingar á 79. gr. Það gengur út á það að þjóðin geti sjálf greitt atkvæði um stjórnarskrána sína, sem hún getur ekki í dag.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann að þessu ferli. Fyrst koma tveir nýkjörnir formenn Samfylkingar og Vinstri grænna og síðan Björt framtíð með tillögu til breytingar á 79. gr. Það fer í gegnum nefndina og í henni sitja þingmennirnir Oddný G. Harðardóttir og Álfheiður Ingadóttir. Það er afgreitt úr nefndinni með ákveðinni breytingu um að þetta standi við hliðina á hinu ákvæðinu o.s.frv. og svo er bætt inn 75% — að fjöldi kjósenda skuli hafa samþykkt það. Ekki orð um auðlindaákvæðið.

Svo gerist það allt í einu að formenn þingflokkanna koma með breytingartillögu við tillögu formanna flokkanna, þessara nýkjörnu, og það er eins og það hafi ekkert verið rætt. Ég spyr hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, sem er nú á annarri þessara tillagna, hvort það hafi ekki verið rætt í þingflokki hans að formennirnir yrðu þá sjálfir með á þessari tillögu. Ég spyr líka af hverju þetta var ekki tekið út í nefndinni þegar það var þar til umræðu. Ég velti því líka fyrir mér hvort þetta muni ekki valda sömu sprengingu í frumvarpinu og breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur.