141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessar vangaveltur og spurningar, tel að þær séu algjörlega á sínum stað.

Ég gat um það áðan í ræðu minni að frumvarp formannanna þriggja hefði af þeirra hálfu verið tilraun til að tryggja áframhald vinnunnar inn á næsta kjörtímabil, annars vegar með þingsályktunartillögu um vinnuferlið og hins vegar með breytingartillögu um hvernig breyta ætti stjórnarskránni, sem er mjög í anda þess sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sjálfur talað fyrir. Það var hugsað í þessum tilgangi og þetta voru hugmyndir sem þessir formenn höfðu rætt á fundum með formönnum annarra stjórnmálaflokka. Þess vegna var þetta hugsað sem einangruð tillaga hvað þetta mál sérstaklega áhrærir og er algjörlega af þeirra hálfu einlæg tillaga eða tilraun í þessa veru.

Að sjálfsögðu var rætt um — og hefur í sjálfu sér verið rætt undir allri vinnunni við stjórnarskrármálið í mínum þingflokki að minnsta kosti, ég get ekki talað fyrir aðra þingflokka — einstaka þætti stjórnarskrármálsins, meðal annars auðlindaákvæðið. Við höfðum verið mjög sátt við þá tillögu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði komið með út úr vinnu sinni hvað varðar auðlindaákvæðið. Þegar málið var komið í þá stöðu sem það er komið í núna og formennirnir ákváðu að leggja sitt af mörkum til þess að brjótast út úr pínulítið læstri stöðu með tillöguflutningi sínum var það líka rætt hvort við ættum að flytja tillögu, til dæmis um auðlindaákvæðið. Niðurstaðan varð sú að bíða með það um sinn en að lokum varð það niðurstaða okkar að við mundum gera það sem stjórnarflokkar.

Ég vek athygli á því að það eru bara fulltrúar tveggja flokka sem flytja þá tillögu, ekki til dæmis hins þriðja sem stendur að hinum tillögunum sem hér eru undir. (Forseti hringir.) Þetta var ákveðið í góðri sátt og það voru allir, í mínum þingflokki að minnsta kosti, sammála því að formaður okkar flytti mál með formönnum hinna flokkanna að því er varðar verklagið (Forseti hringir.) og um að við sem stöndum að þessari tillögu um náttúruauðlindamálið stæðum að henni.