141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hún fyrir margra hluta sakir athyglisverð og mér fannst ákveðinn tónn í henni sem sneri að því hvort við ættum að hugsa það að breyta aðferðinni við það hvernig staðið er að breytingum á stjórnarskránni. Hv. þingmaður benti réttilega á að menn hefðu verið að gera þetta í litlum áföngum á undanförnum árum og áratugum. Við skulum ekki vera að deila um það hvort okkur þykja skrefin lítil eða stór en í nefndinni sem fjallaði um breytingar á stjórnarskránni var alltaf gerð sú krafa að mikil sátt yrði um þær breytingar sem þar kæmu fram. Stjórnarandstaðan í þeirri nefnd hafði í raun og veru neitunarvald.

Mér fannst þessi tillaga formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um margt athyglisverð. Ég nálgaðist það í 1. umr. á þann veg að mjög áhugavert væri að ræða þetta og skoða út frá þeim grunni. Við getum auðvitað deilt um þröskuldana, búið er að gera breytingartillögu í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem snýr að þröskuldunum í þinginu, þ.e. 2/3 í staðinn fyrir 3/5, það er aukinn meiri hluti þar þannig að kallað er á breiða samstöðu í þinginu um breytingarnar.

Flutt hefur verið tillaga um að taka auðlindaákvæðið inn núna. Þó að það hafi verið rætt í mörg ár þá hefur sú umræða ekki farið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Meiri hlutinn kemur fram með þessa tillögu og síðan koma fjórir flutningsmenn tillögunnar og færa hana hér inn. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti verið mér sammála um að þetta geti sett fleyg í málið, að nálgast það með þessu verkefni frekar en að taka það þá inn í nýtt fyrirkomulag og breytingar á stjórnarskránni.