141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nýlega fram komna tillögu frá formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrínu Jakobsdóttur, og formanni Bjartrar framtíðar, Guðmundi Steingrímssyni, um meðhöndlun svokallaðs stjórnarskrármáls. Hvers vegna er þessi tillaga fram komin? Jú, hún er komin fram vegna þess að þeir tveir stóru flokkar sem eru í stjórnarandstöðu í þinginu, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa leynt og ljóst lagst fyrir frumvarp til laga að nýrri stjórnarskrá með öllum tiltækum ráðum, hótað málþófi er standi út kjörtímabilið líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerði raunar einn í lok síðasta kjörtímabils og hóta því jafnframt að spilla öllum öðrum málum sem í þinginu eru, þörfum jafnt sem óþörfum. Það er sá veruleiki sem við horfumst í augu við í þinginu og það er auðvitað þyngra en tárum taki að slíku ofbeldi sé beitt í ljósi forsögu málsins og þess hve lengi og ítarlega hefur verið að því unnið.

Bæði er að tillögurnar sem fyrir liggja eru mikið umfjallaðar, margræddar, rýndar af aðilum innan lands og erlendis, hafa hlotið umfjöllun bæði í stjórnlaganefnd, á opnu þingi almennings, í stjórnlagaráðinu og síðan í ítarlegri þinglegri meðferð í vetur fyrir utan aðkomu Feneyjanefndarinnar og fjölmargra annarra aðila, m.a. sérfræðihóps sem yfirfór tillögurnar á milli umræðna. Þær hafa þroskast mikið og batnað í meðförum, tel ég, og staðreyndin er sú að fyrir liggur að fjórir stjórnmálaflokkar lofuðu þjóðinni því að á þessu kjörtímabili yrði farið í þessa vegferð og sett ný stjórnarskrá. Það eru þeir þrír flokkar sem fara nú fyrir þessari málsmeðferðartillögu og svo er það Framsóknarflokkurinn sem hefur kynnt til sögunnar nokkur nýmæli í því að svíkja kosningaloforð á þessu kjörtímabili, annars vegar í því sem þeir gerðu hér á föstudaginn þegar í ljós kom að kosningaloforðið þeirra um afnám verðtryggingar á ekki við nein rök að styðjast og nær ekki til þeirra lána sem gefin eru út. Er það skemmtilegt nýmæli að svíkja kosningaloforð fyrir kosningar, en það er út af fyrir sig ágætt því að þá vita kjósendur að hverju þeir ganga. (Gripið fram í.)

Hitt hlýtur að vera nýmæli í að minnsta kosti lýðræðissögu Vesturlanda, ef ekki heimsins alls, að fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Framsóknarflokkurinn því að á þessu kjörtímabili skyldi kjörið stjórnlagaþing og landinu sett ný stjórnarskrá sem og aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Allir vita hverjar efndirnar hafa verið á því. Það er út af fyrir sig ekki nýmæli að stjórnmálaflokkar geti ekki efnt kosningaloforð sín í samsteypustjórnum eða vegna einhverra tilfallandi aðstæðna þegar menn eru við stjórnvölinn hverju sinni en hitt er auðvitað nýmæli í veraldarsögunni að stjórnarandstöðuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn gangi á bak kosningaloforða sinna, ábyrgðarlaus með öllu af stjórnarathöfnum.

Svo rammt kveður að þessum sinnaskiptum, ef við orðum það kurteislega, Framsóknarflokksins að hann er tilbúinn að grípa til hvaða bragða sem er í þinginu til að koma í veg fyrir að þeirra eigin kosningaloforð nái fram að ganga, þ.e. að eftir þetta langa og ítarlega ferli ráði niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu og lýðræðislegur vilji meiri hlutans á Alþingi sem kjörinn hefur verið lyktum málsins. En það liggur fyrir að meiri hluti kjörinna þingmanna á Alþingi Íslendinga styður fyrirliggjandi tillögur.

Þegar lýðræði okkar var komið í slíkt öngstræti stóðu formenn flokkanna sem þessar tillögur flytja auðvitað frammi fyrir miklum vanda. Ég tel að það lýsi að minnsta kosti miklum skilningi á sjónarmiðum minni hlutans, mikilli viðleitni til að koma til móts við þau og nánast aðdáunarverðri þolinmæði í garð þessa ofbeldis þegar þeir leggja til að ekki verði lokið við lögfestingu stjórnarskrár á þessu kjörtímabili heldur leggja fram sem sáttaboð tillögu sem tryggir að meðferð málsins og allri þeirri vinnu sem í það hefur verið lögð verði fundinn farvegur fram yfir kosningar og inn í nýtt kjörtímabil. Það lýsir ótrúlegri óbilgirni, ósvífni og skefjalausu ofbeldi gagnvart lýðræðinu þegar þessu sáttaboði er hafnað og jafnvel um það hótað hinu sama ofbeldi og í hinum stærri málum. Það hlýtur að vera öllum þeim sem er annt um þingræði á Íslandi nokkurt umhugsunarefni og gefa mönnum fullt tilefni til að velta því fyrir sér af fullri alvöru hvort hægt sé að búa við slíka starfshætti á Alþingi Íslendinga eða hvort nauðsynlegt sé að grípa til einhverra þeirra ráða er duga megi til að höggva á hnúta sem þessa.

Síðan er komin fram við þetta mál breytingartillaga sem hefur orðið nokkuð fræg að endemum enda hlýtur það að vera einsdæmi að menn leggi til heila stjórnarskrá í breytingartillögu eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur gert. Það er auðvitað ótækt með öllu, vart að það standist þingsköp og sannarlega virðir það ekki áskilnað stjórnarskrár lýðveldisins um að hér eigi að fara fram þrjár umræður um lagafrumvörp því að breytingartillagan kemur fram við 2. umr. Að þeirri stjórnarskrá höfum við nú unnið eið og ég fæ ekki séð að í þessum sölum geti verið nokkur meiri hluti fyrir því að stunda slík vinnubrögð. Lítt eru þau betri en ofbeldið sem beitt er til að koma í veg fyrir að vilji þjóðarinnar og vilji hluti meiri hluta alþingismanna nái fram að ganga við atkvæðagreiðslu um sjálfa stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, grundvallarskipun samfélagsins.

Önnur breytingartillaga hefur hins vegar komið fram sem lýtur að auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Um þá breytingartillögu gegnir allt öðru máli. Hún byggir á umræðum sem fram hafa farið milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi í vel á annan áratug, umræður sem staðið hafa frá því um síðustu aldamót hið minnsta um nauðsyn þess að tryggja þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Í orði kveðnu hafa margir flokkanna sagst vilja styðja slíkt ákvæði en þegar á reynir má alltaf ganga að því sem vísu að Sjálfstæðisflokkurinn leggst í veg fyrir það eins og hann gerði í lok síðasta kjörtímabils þegar hann talaði alla leiðina inn í kosningar til að koma í veg fyrir að festa mætti auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar verið viljugri til að ljá slíku ákvæði máls.

Það ákvæði sem hér liggur fyrir hefur hlotið víðtæka umfjöllun og byggir á langri þróun þess. Í því eru mikilvæg nýmæli sem komu fram á þessum vetri vegna þess að staðreyndin er sú að því miður var um þau auðlindaákvæði aldrei þannig búið að menn hefðu á Alþingi Íslendinga getað samþykkt þau í stjórnarskrá landsins. Þau voru svo innantóm að orðalagi öllu að daginn eftir að þau hefðu öðru sinni verið staðfest og þar með orðin fullgild ákvæði í stjórnarskrá Íslands um það að auðlindir skyldu vera í þjóðareign hefði verið hægt með einfaldri atkvæðagreiðslu á Alþingi verið að selja, ekki bara Landsvirkjun heldur öll vatnsréttindin sem í Landsvirkjun eru, allar orkuauðlindir landsins þrátt fyrir hið svokallaða auðlindaákvæði því að þau auðlindaákvæði sem menn voru að sýsla með hefðu aldrei náð til sjálfra orkuauðlinda landsins sem þó eru í almannaeigu.

Ég held að það lýsi því ágætlega hversu vanbúin þau ákvæði um þjóðareign á auðlindum voru og hversu mikið fagnaðarefni það er að fá loksins býsna vel þroskað ákvæði sem hægt er að festa í lög. Og nú mun reyna á það á næstu dögum, kannski vikum, hvort það tekst að tryggja framgöngu þess máls sem yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar hefur stutt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er einmitt þjóðareign á auðlindum, það ákvæði sem mest samstaða er um meðal þjóðarinnar og flestir flokkar hafa lýst yfir í orði kveðnu að þeir séu tilbúnir að setja. Við fáum að sjá hvort menn meina eitthvað með þeim orðum sínum og hvort þeir eru tilbúnir eftir 13 ára umræður og tveggja kjörtímabila málþóf að leyfa því máli loksins að ganga til atkvæða eða hvort grípa þurfi til einhverra ráðstafana svo slíkt ákvæði megi loksins koma til atkvæða. Sú skylda hvílir á herðum þjóðkjörinna fulltrúa að læra af reynslunni og það lærðum við auðvitað af hruninu að sú hætta getur reglulega steðjað að litlu þjóðríki eins og Íslandi að efnahagslegar ógöngur setji auðlindir hennar í hættu, að þær komist í eigu lánardrottna sinna, erlendra aðila, og muni eftir það ekki verða almenningi á Íslandi til þess gagns sem upp var lagt með. Það að varna því að slíkt geti gerst hlýtur að vera ein af helstu skyldum okkar sem höfum verið sett til verka við að byggja upp nýja skipan í landinu eftir þær miklu ófarir sem við höfum gengið í gegnum.