141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þótt ég segi nú ekki að ég hafi verið sammála öllu sem hv. þingmaður segir. Hann segir að málið hafi strandað vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi hótað málþófi út af heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í dag þegar hann flutti meirihlutaálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að málið hafi í raun verið fallið á tíma og það séu einungis tvær vikur síðan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afgreiddi frá sér stjórnskipunarhlutann. Hans skoðun á því blasti við, það var fallið á tíma að málið gæti farið í svokallaða heildarendurskoðun. Er hv. þingmaður ósammála þessu hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram?

Ég tek hins vegar undir það sem hv. þingmaður sagði, mér fannst þessi tillaga formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar athyglisverð og nálgunin á henni, hvernig hægt væri að koma málinu í höfn eða nýta þá miklu vinnu sem hefði farið fram og flytja þetta breytingarákvæði í stjórnarskrána. Mér fannst hún mjög athyglisverð og nálgaðist hana við 1. umr. um málið með það fyrir augum að reyna að ná sátt um það hvernig mætti vinna úr þeirri stöðu sem komin var upp. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki einkennilegt að breytingartillaga skuli koma fram við það þegar búið er að flytja breytingartillögu við þetta frumvarp sem eingöngu snýr að breytingum á breytingarákvæðunum sem snýr að svokölluðu auðlindaákvæði, þótt búið sé að benda allt þetta kjörtímabil á að taka afmarkaðri kafla, og þar á meðal þetta auðlindaákvæði, inn í stjórnarskrána. Þingstörfum á að vera lokið. Getur hv. þingmaður tekið undir þessa skoðun mína?