141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin en staldra við það sem hv. þingmaður sagði í lok svars síns. Ef það er eins og hv. þingmaður lýsir því, að það sé búið að ræða þetta mál í 13 ár, af hverju var það þá ekki í frumvarpi formanna stjórnmálaflokkanna þegar það var lagt fram? Af hverju kemur það sem breytingartillaga við þetta frumvarp? Ef það er klárt og kvitt hvernig menn vilja hafa auðlindaákvæðið, af hverju var þetta auðlindaákvæði eins og það hljómar núna ekki sett beint í þjóðaratkvæðagreiðslu? Við vitum að þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um það hvort fólk vildi hafa auðlindaákvæðið í stjórnarskránni. Það er ekki deilt um það. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggur fram eina breytingu á tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem snýr akkúrat að auðlindaákvæðinu vegna þess að hún telur það ekki ásættanlegt.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig getur hv. þingmaður haldið því fram að auðlindaákvæðið eins og það hljóðar núna hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ekki hefur verið rætt mikið efnislega í nefndinni nema bara innan meiri hlutans, af hverju var það þá ekki bara sett beint í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og það er fyrst það lá alveg fyrir og er búið að liggja fyrir í áraraðir að mati hv. þingmanns?

Hver sem er getur komið fram með auðlindaákvæði og sagt: Ja, þjóðin vill hafa auðlindaákvæði og þetta er hið eina rétta.

Hv. þingmaður veit jafn vel og ég að það er ekki svona. Ég upplifi það þannig að menn vilji setja ákvæðið í þennan ágreining til að geta farið með það í einhvern kosningaleik. Það tel ég mjög slæmt vegna þess að ég leit svo á að þeir hv. þingmenn sem fluttu þetta frumvarp sem hér um ræðir vildu akkúrat stíga af þeirri braut og reyna að fara inn í ferilinn með öðrum hætti en hér í stefnir. Það er mín persónulega skoðun. Þess vegna harma ég það að nálgunin sé sú að leggja þessa breytingartillögu fram við frumvarpið eins og það er.