141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að undir ræðu hv. þingmanns fannst mér orðfærið vera með þeim hætti að það eina sem ræðan í raun skildi eftir var orðið ofbeldi. Hér var farið í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október. Fyrsta spurningin var hvort leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Síðan var í öðrum spurningum spurt hvort auðlindir ættu að vera í þjóðareign.

Auðlindaákvæðið í tillögum stjórnlagaráðs er allt öðruvísi orðað en það auðlindaákvæði sem hér er lagt til sem breytingartillaga við tillögu formanna þriggja flokka. Í tillögum stjórnlagaráðs var talað um fullt gjald fyrir auðlindir, hér stendur: gegn eðlilegu gjaldi. Telur hv. þingmaður sem ítrekað talar um að hér eigi að fara að þjóðarvilja að það sem hér sé verið að gera sé þjóðarviljinn samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október eða er þetta sýndarleikur af hálfu þeirra sem nú koma með þetta ákvæði í þessari mynd hingað inn sem breytingartillögu við tillögu formanna flokkanna sem átti að reyna á sem sáttatillögu til að geta sett frumvarpið áfram yfir á næsta þing til umræðu?