141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ágæta yfirferð. Mig langar til að spyrja hana, þar sem hún situr væntanlega í þingflokki hv. þingmanna Samfylkingarinnar, hvort hún kannist ekki við ferlið. Fyrst leggja formenn þriggja flokka fram tillögu og þá hefur þetta væntanlega verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár.“

Þarna er sem sagt bara verið að breyta 79. gr. Það er reyndar hugmynd sem ég hef komið með í tvígang áður, þess vegna er ég mjög ánægður með að menn skuli taka upp góðar hugmyndir.

Síðan fer þetta til nefndar sem skilar áliti þann 14. mars. Í nefndinni sitja þrír hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir sem er reyndar þingflokksformaður og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Þetta hefur væntanlega verið rætt í þingflokknum líka og tekin afstaða til þess. Ekki er orð um auðlindaákvæðið.

Svo allt í einu eftir þetta kemur fram tillaga frá þingflokksformönnum Samfylkingar og Vinstri grænna, ekki Bjartri framtíð, og þá er farið að ræða um auðlindaákvæðið. Af hverju í ósköpunum var ekki sett breytingartillaga í nefndarálit nefndarinnar? Eða af hverju fluttu formenn flokkanna þetta ekki frekar en þingflokksformennirnir? Eru einhverjar deilur innan flokkanna um þetta, sérstaklega Samfylkingarinnar?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann: Mun hún greiða tillögu Margrétar Tryggvadóttur atkvæði sitt? Það er lykilatriði því að þar er öll stjórnarskráin undir í lítilli breytingartillögu. Svo vil ég spyrja hana um auðlindaákvæðið en ég kem inn á það í seinna andsvari.