141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrirspurnina. Hann vísar til þess að formenn þriggja flokka hafi lagt fram tillögu í þeirri viðleitni að ná fram víðtækri sátt með ákveðna málsmeðferð í huga sem var lögð til. Sú sátt náðist ekki. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa ekki fallist á það sáttaboð.

En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, að minnsta kosti okkur þingmönnum Samfylkingarinnar er mjög umhugað um þetta mál og úr því að ekki var tekið í þá sáttarhönd sem þarna stóð til boða hlutum við að hugleiða nýja stöðu málsins og eðlilegt að hefja umræðu þess í heild sinni að nýju þar sem frá var horfið, ekkert nema sjálfsagt og eðlilegt við það.

Menn hafa lýst sig reiðubúna að hlusta eftir og þreifa á þeim möguleikum sem væru í stöðunni til að koma málinu áleiðis og annaðhvort ljúka því núna fyrir þessi þinglok eða að minnsta kosti tryggja framgang þess eftir kosningar. Þær tillögur sem uppi hafa verið og þær þreifingar og það sem lagt hefur verið á borð í þessu máli á undanförnum dögum hefur allt miðað að því.

Varðandi það hvernig ég ætla að greiða atkvæði þeim tillögum sem fyrir liggja finnst mér ótímabært að svara fyrr en þar að kemur.