141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Flýtir auðlindaákvæðið fyrir sáttum í þessu máli? Ég var í ræðu minni að vitna til ummæla sem fallið hafa af hálfu frammámanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem gáfu fyllsta tilefni til að ætla að mönnum væri umhugað um að koma auðlindaákvæðinu í gegn. Þeir hafa hins vegar ekki staðið við þau stóru orð. Eins og ég vitnaði orðrétt í létu þeir í það skína og sögðu orðrétt að þeim væri umhugað um það þannig að ekki höfðum við ástæðu til að ætla annað en að þar fylgdi hugur máli þar til annað kom í ljós.

Ég skal alveg trúa hv. þm. Pétri Blöndal með það að hann hafi verið sáttur við tillögu formannanna, en þau viðbrögð sem bárust úr heimaranni hans, Sjálfstæðisflokknum, og frá framsóknarmönnum báru ekki vott um þann sáttavilja sem þingmaðurinn kann að bera í brjósti.

Varðandi sjónarmiðin um eðlilegt gjald og hvort þetta útiloki strandveiðarnar, ég skil það ekki alveg vegna þess að ef það verður meginviðmið að greitt skuli eðlilegt auðlindagjald (PHB: Greiða ekki neitt.) á það bara — strandveiðarnar greiða ekki neitt eins og sakir standa enda hefur ekkert auðlindaákvæði tekið gildi. En þegar það er orðið meginviðmið mundi ég halda að allir ættu að sitja við sama borð og greiða auðlindagjald með einum hætti eða öðrum. (Gripið fram í: Hvað með …?) En það kann vel að vera að einhverjar meðalhófs- og sanngirnisreglur þurfi að gilda um hvernig það er gert. Meðal annars vegna þess að hérna er ekki talað um fullt gjald væri ríkið ekki skyldugt til að taka alltaf hæsta boði eftir þessa breytingu þannig að þá væri ekki hætta á því að markaðsráðandi aðilar eða auðjöfrar kæmu plaffandi inn á sviðið til að hirða auðlindirnar fyrir hæsta gjald. Þess vegna tel ég eðlilegt að gera þessa orðalagsbreytingu (Forseti hringir.) og tala frekar um eðlilegt gjald.