141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:10]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að hin efnislega umræða hafi aldeilis farið fram í þinginu, ekki síst í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem lét sér ekki nægja að fjalla um málið á ótölulegum fjölda funda heldur sendi það til umsagnar í allar nefndir þingsins. Allar nefndir þingsins fengu að fjalla um málið og skila inn umsögnum. Það var mikil vinna sem við lögðum mikið á okkur við að inna af hendi og þar með var allt þingið virkjað. Þau vinnubrögð voru til þvílíkrar fyrirmyndar. Ég hef ekki orðið þess vör að önnur eins vinnubrögð hafi verið viðhöfð í neinu öðru máli þannig að það er ekki hægt að kvarta undan því að það hafi skort efnislega umræðu í þinginu eftir að stjórnlagaráð lagði sína ágætu grunnvinnu á borðið fyrir Alþingi Íslendinga.

Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi eins og Alþingi ákvað. Þar gafst þjóðinni kostur á því að fást við þau álitamál sem uppi voru eftir vinnu stjórnlagaráðs og við fengum ráðgjöf frá þjóðinni út úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, höfum unnið með hana síðan af virðingu fyrir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Ég sé bara ekki að hægt hefði verið að vinna þetta mál betur á nokkurn hátt.