141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega hárrétt að eitt orð getur breytt miklu, eins og segir líka um brosið. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Ég lít svo á að þær orðalagsbreytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskrártillögunum séu allar af virðingu við þau markmið sem stjórnlagaráðið sjálft setti fram í greinargerð sinni. Ég tel að það hafi verið vandað mjög vel til þess verks og hverju orði velt fram og til baka áður en púslið var sett í heildarmynd textans.

Þingmaðurinn vísar til þess að það hafi verið sett sem skilyrði að tillögur stjórnlagaráðs yrðu teknar til efnislegrar meðferðar áður en málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið fór til efnislegrar meðferðar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var þar til efnislegrar meðferðar og síðan búið til þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar sem hlustunin tók við út í samfélagið. Síðan var tekið við skilaboðunum frá þjóðinni og málið kom aftur til þingsins og ferillinn sá sem ég lýsti í mínu fyrra andsvari. Það kemur alltaf að þeim tímapunkti að það þarf að draga strikið einhvers staðar og ákveða að nú sé málið fullmelt og tímabært að taka ákvörðun. Í þessu máli núna er vilji allt sem þarf. Málið er fullrætt.