141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þar sem ég geri ráð fyrir að þetta sé síðasti þingfundardagurinn minn langar mig til að segja nokkur orð og kveðja þennan góða starfsvettvang. Ég vil þakka það traust sem mér hefur verið sýnt og fyrir þau trúnaðarstörf sem mér hafa verið falin á vegum þingsins. Ég vil þakka kjósendum mínum og stuðningsmönnum, samstarfsmönnum og ekki síst starfsmönnum þingsins fyrir ótrúlega seiglu og dugnað á þessum síðustu og erfiðu tímum.

Það hefur margt breyst þau 14 ár sem ég hef setið á þingi. Pólitíkin er hin sama, átakalínurnar eru þær sömu, við tökumst á um markaðshyggju og félagshyggju, við tökumst á um náttúruvernd og nýtingu og eignarhald á auðlindum landsins. Við tökumst á um einstaklingshyggju og ekki síst hvernig eigi að fjármagna opinbera þjónustu. En pólitíkin hefur skerpst eftir hrun og það sjáum við á þingstörfunum. Við höfum tekist á um ólíkar leiðir til að bjarga þjóðarskútunni og heimilunum frá gjaldþroti eftir efnahagshrunið. Þingsköpin skapa umræðuna hér en ekki bara þingsköpin heldur líka hefðir og siðir.

Hæstv. forseti. Á þessu kjörtímabili hefur þriðjungur þingmanna verið nýr á þingi. Hann hefur ekki kynnst neinu öðru en því starfsumhverfi sem nú hefur skapast. Mér finnst áhyggjuefni að horfa til næsta kjörtímabils þegar koma nýir þingmenn og læra það sem fyrir þeim er haft. Því hvet ég hæstv. forseta og þingmenn alla að taka saman höndum, ljúka við endurskoðun á þingsköpum, koma hér á siðareglum og vinna þau störf sem við ætluðum okkur og eru þverpólitísk og mikilvæg fyrir okkur, fyrir þingið og þjóðina alla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)